Erlent

Blússandi hag­vöxtur í Banda­ríkjunum

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Trump á samkomu í síðustu viku.
Trump á samkomu í síðustu viku. AP

Hagvöxtur í Bandaríkjunum jókst hraðar en björtustu spár höfðu gert ráð fyrir á þriðja ársfjórðungi, þar sem útflutningur jókst og innlend eftirspurn var sterk. Hagvöxtur mælist nú 4,3 á ársgrundvelli, en á öðrum ársfjórðungi mældist hann 3,8 prósent, og er því um að ræða mesta hagvöxt sem mælst hefur á síðustu tveimur árum.

Erlendir miðlar eins og BBC fjalla um málið en þar segir að Bandaríkjamenn hafi verið að fást við ýmsar áskoranir í innflytjendamálum og milliríkjaviðskiptum, en hagkerfið hafi staðið þetta af sér.

Fram kemur að innflutningur Bandararíkjamanna hafi dregist saman í kjölfar umfangsmikilla innflutningstolla sem ríkisstjórn Donalds Trump lagði á flest lönd.

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, og Jerome Powell, seðlabankastjóri Bandaríkjanna fara yfir málin.AP

Útflutningur hafi aftur á móti aukist verulega, eða um allt að 7,4 prósent.

Aftur á móti hafi dregið úr fjárfestingum í Bandaríkjunum, og þá sé húsnæðismarkaðurinn erfiður erfiður og vextir enn þokkalega háir.

„Þetta hagkerfi hefur staðið af sér allar dómsdagsspár síðan 2022,“ segir Aditya Bhave, aðalhagfræðingur bankans Bank of America við BBC.

Hagvöxturinn hafi verið umfram spár bankans, sem gerðu ráð fyrir um 3,2 prósenta vexti.

Í umfjöllun Telegraph er fullyrt að hagvöxturinn sé drifinn áfram af gríðarlegum fjárfestingum í gervigreindarfyrirtækjum og gagnaverum í tengslum við þau.

Haft er eftir sérfræðingum þýska bankans Deutsche Bank, að án gervigreindarverkefnanna hefði hagvöxtur í Bandaríkjunum sennilega verið neikvæður.

Í frétt Telegraph segir að útflutningur hafi aukist um 8,8 prósent á ársgrundvelli, og innflutningur dregist saman um 4,7 prósent.

Donald Trump sagði í færslu á samfélagsmiðlum að árangurinn væri ábyrgri ríkisstjórn og tollastefnunni að þakka.

„Fulla ferð áfram í gullöld Trumps. Við erum rétt að byrja,“ sagði hann.

Truth Social



Fleiri fréttir

Sjá meira


×