Innlent

Nemandi réðst á kennara á jóla­skemmtun í Ingunnarskóla

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Frá Grafarholti í Reykjavík.
Frá Grafarholti í Reykjavík. Vísir/Vilhelm

Tveir kennarar við Ingunnarskóla í Grafarholti í Reykjavík urðu fyrir árás nemanda á miðstigi á jólaskemmtun í íþróttahúsi skólans í gær. Foreldrar hafa verið upplýstir um málið en hluti nemenda í fimmta til sjöunda bekk varð vitni að árásinni og var brugðið.

Í tölvupósti skólastjórnenda til foreldra kemur fram að strax hafi verið brugðist við samkvæmt ferlum skólans og borgarinnar. Málið sé í ferli. Atvikið hafi átt sér stað á jólaleikum í íþróttahúsinu þar sem nemendur í fimmta, sjötta og sjöunda bekk voru saman.

„Því miður urðu hluti nemenda í 5.-7. bekk vitni að þessum atburði og var þeim brugðið. Stjórnendur ræddu við hópinn og buðu þeim sem vildu ræða málin frekar að hitta námsráðgjafa,“ segir í póstinum. Þá er foreldrum sagt að velkomið sé að hafa samband við Austurmiðstöð vilji þeir ræða málin frekar eða leita ráðgjafar.

Þar segir enn fremur að stjórnendur harmi atvikið. Þeir voni að nemendur hafi að öðru leyti átt góðan dag og geti farið glaðir og kátir út í jólafríið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×