Innlent

Ekki búið að bera kennsl á þann sem ekið var á

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá vettvangi slyssins upp úr klukkan hálf ellefu í morgun.
Frá vettvangi slyssins upp úr klukkan hálf ellefu í morgun. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vinnur að rannsókn alvarlegs umferðarslyss á Suðurlandsbraut í morgun þar sem ekið var á einstakling á göngu við gönguljós. Lögregla leitar að vitnum að atvikinu.

Það var um tíuleytið í morgun sem slysið varð. Ásmundur Rúnar Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, segir unnið að því að bera kennsl á þann sem ekið var á. Samkvæmt heimildum fréttastofu var viðkomandi ekki með nein skilríki á sér.

Ásmundur Rúnar segir ekkert benda til þess að ökumaðurinn, sem ók fólksbíl, hafi verið undir áhrifum. Ökumaðurinn slasaðist ekki í slysinu.

Málið er í rannsókn og hvetur Ásmundur Rúnar möguleg vitni til að hafa samband við lögreglu í símann 444-1000.

Lokað var fyrir umferð um Suðurlandsbraut í vesturátt frá Reykjavíkurvegi í hálfa aðra klukkustund á meðan lögregla og Rannsóknarnefnd samgönguslysa athöfnuðu sig á vettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×