Wirtz fékk ekki markið skráð á sig og ný­liðarnir fögnuðu á Anfi­eld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Florian Wirtz fagnar marki Liverpool með Andrew Robertson en markið var á endanum skráð sem sjálfsmark.
Florian Wirtz fagnar marki Liverpool með Andrew Robertson en markið var á endanum skráð sem sjálfsmark. Getty/ Justin Setterfield

Nýliðar Sunderland náðu í stig á móti Englandsmeisturum Liverpool á Anfield í kvöld þegar liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni.

Sunderland komst yfir í leiknum en Florian Wirtz átti stóran þátt í jöfnunarmarkinu níu mínútum fyrir leikslok. 1-1 eru mun verri úrslit fyrir heimamenn en fyrir gestina.

Liverpool komst upp fyrir Manchester United með þessu stigi og situr nú í áttunda sæti. Sunderland er í sjötta sætinu og er að eiga frábært tímabil.

Liverpool reyndi að sækja sigurmark í lokin en var líka heppið að tapa ekki leiknum.

Það hefur lítið gengið hjá Liverpool að undanförnu en liðið vann West Ham um helgina. Mohammed Salah var aftur á bekknum eins og á móti West Ham. Þá gekk það upp en ekki í kvöld. Salah kom inn á sem varamaður en tókst ekki að búa til mark.

Liverpool-liðið var óöruggt í flestum aðgerðum sínum fram eftir leik og þessi leikur bætist í hóp margra undarlegra frammistaða liðsins að undanförnu.

Liverpool skapaði sér lítið fram eftir leik og fékk síðan á sig mark eftir klaufagang í öftustu vörn liðsins á 67. mínútu.

Chemsdine Talbi fékk þá boltann frá Enzo Le Fee og lét vaða af löngu færi. Boltinn hafði viðkomu í Virgil Van Dijk og breytti um stefnu. Þessi snerting breytti þessu í óverjandi skot fyrir Alisson í markinu.

Liverpool reyndi að sækja mark það sem eftir var leiks en eins og oft áður gekk ekkert hjá liðinu í sóknarleiknum.

Markið kom þó á 81. mínútu. Curtis Jones vann boltann við teiginn og kom honum á Florian Wirtz. Sá þýski sýndi lipur tilþrif í teignum og skoraði með skoti sem fór af varnarmanninum Nordi Mukiele og í netið. 

Flestir héldu að Wirtz hefði skorað fyrsta mark sitt fyrir Liverpool en markið var á endanum skráð sem sjálfsmark hjá Nordi Mukiele. Bið Wirtz eftir merki lengist því enn.

Skyndisókn Sunderland-manna undir lokin skilaði næstum því sigurmarki þegar Wilson Isidor slapp einn í gegn en Federico Chiesa hljóp alla leið til baka og bjargaði á marklínu.

Sigurmarkið kom ekki og Liverpool er nú ellefu stigum á eftir toppliði Arsenal.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira