Erlent

Trump sagður hafa sett Maduro afar­kosti

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Trump er sagður hafa krafist afsagnar Maduro. Maduro segir Trump ásælast olíuauðlindir Venesúela.
Trump er sagður hafa krafist afsagnar Maduro. Maduro segir Trump ásælast olíuauðlindir Venesúela. Getty/Pete Marovich

Donald Trump Bandaríkjaforseti er sagður hafa stillt Nicolás Maduro, forseta Venesúela, upp við vegg í samtali á dögunum og krafist þess að hann segði af sér.

Bandaríkjaforseti staðfesti á sunnudag að hann og Maduro hefðu rætt í saman í síma. „Ég myndi hvorki segja að það hafi farið vel eða illa; þetta var símtal,“ sagði forsetinn í samtali við fréttamenn.

Heimildarmenn Miami Herald segja skilaboð Trump til Maduro hins vegar hafa verið skýr. „Þú getur bjargað sjálfum þér og þínum nánustu en þú verður að yfirgefa landið núna,“ á Trump að hafa sagt. Bandaríkin myndu tryggja öryggi hans, eiginkonu hans og sonar, en aðeins ef hann segði tafarlaust af sér.

Maduro er sagður hafa neitað en gert Trump gagntilboð um að „segja af sér“ með skilyrðum, meðal annars að honum yrði veitt friðhelgi alls staðar í heiminum og að hann hefði áfram stjórn yfir hernum.

Trump lýsti í framhaldinu yfir „lokun“ lofthelgi Venesúela.

Þrátt fyrir aukin viðbúnað Bandaríkjamanna telja sérfræðingar ólíklegt að Trump muni beita hernaðarvaldi til að koma Maduro frá völdum. Maduro, sem margir segja hafa rænt síðustu forsetakosningum, segir Trump ásælast olíuauðlindir Venesúela.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×