Fótbolti

„Hefði verið vondur tíma­punktur í allri neikvæðninni“

Aron Guðmundsson skrifar
Heimir Hallgrímsson sýndi snilli sína á fimmtudaginn þegar Írar unnu magnaðan sigur gegn Portúgölum.
Heimir Hallgrímsson sýndi snilli sína á fimmtudaginn þegar Írar unnu magnaðan sigur gegn Portúgölum. Getty/Stephen McCarthy

Heimir Hall­gríms­son segir undan­farna daga hafa verið eina gleði­sprengju, töfrum líkastir og sam­g­leðst hann með írsku þjóðinni eftir að Írland tryggði sér sæti í umspili fyrir HM í fótbotlta. Á svona dögum gleymast erfiðu dagarnir sem höfðu á undan gert vart um sig þegar ekki gekk eins vel.

„Þetta hefur bara verið töfrum líkast. Ein­hvern veginn þegar allt gengur upp þá gleymir maður öllu því sem á áður hefur gengið á,“ segir Heimir í viðtali hjá íþrótta­deild Sýnar en eftir að hafa átt nokkuð strembna daga í starfi í fyrri hluta undan­keppninnar og fengið nokkuð harða og óvægna gagn­rýni í sinn garð lét Heimir verkin tala innan vallar.

Nánar verður rætt við Heimi í Sportpakkanum að loknum kvöldfréttum Sýnar í kvöld. Þar verður farið yfir dagana ótrú­legu sem hafa liðið frá því að Írar tryggðu sér sæti í um­spili HM með mögnuðum sigrum sem og gagn­rýnina sem hann fékk í sinn garð á sínum tíma og var ítrekað kallaður tannlæknirinn Heimir en ekki landsliðsþjálfarinn Heimir af fjölmiðlum og sparkspekingum.

Vildi bíða með viðræður

Fram hefur komið að Heimir hafi verið með til­boð um nýjan samning á borðinu frá írska knatt­spyrnu­sam­bandinu en það var að hans beiðni að viðræður um nýjan samning yrðu settar á ís um hríð.

Klippa: Heimir um framtíðina og samning sinn

„Við munum setjast niður saman þegar það fer að róast og spjalla saman. Ég hef alltaf átt í mjög hrein­skilin og góð sam­skipti við stjórnar­mennina. Gott fólk þar og allt mjög heiðar­legt í öllum þeim sam­skiptum. Við vorum búin að ákveða að taka upp samninga­viðræður eftir fyrsta gluggann en af því að það fór svo illa þá bað ég þá um að gera ekkert á þeim tíma­punkti. Það hefði bara verið vondur tíma­punktur í allri neikvæðninni. Við ákváðum bara að fresta því að spjalla saman þangað til eftir þessa keppni. Samningurinn minn rennur út eftir HM. Þannig vonandi verður það bara í júlí á næsta ári. Það er hálft ár eftir enn í mínum huga alla­vegana.“

Heimir hefur varið síðustu dögum eftir úr­slita­leikinn gegn Ung­verjum hér heima en er nú á leið út til Sviss þar sem að á morgun verður dregið í HM um­spilið. Þar verður Ír­land í þriðja styrk­leika­flokki og mun fá úti­leik í undanúr­slitum gegn annað hvort lands­liði Wa­les, Tékk­lands, Póllands eða Slóvakíu.

Eiga fyrir höndum erfiðan leik á erfiðum útivelli

Eyjamaðurinn segir það í raun ekki skipta máli á móti hverjum Ír­land dregst.

Klippa: Heimir um HM umspilið

„Nei ekki þannig séð. Við eigum bara úti­leik og það var það versta, að fara ekki upp í annan styrk­leika­flokk og fá þar með heima­leik. Úr­slitin bara féllu ekki með okkur tengt því hvaða lið fóru upp úr hvaða riðlum. Hefði Ís­land farið áfram þá væri lík­legra að við hefðum dottið upp í annan styrk­leika­flokk. Við eigum úti­leik og skiptir sjálfu sér engu, þetta eru allt erfiðir and­stæðingar, erfiðir úti­vellir. Við verðum bara að halda áfram, reyna að bæta okkur, vera jákvæðir og svo sjáum við til hvað gerist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×