Enski boltinn

David Beckham að­laður: „Ég gæti ekki verið stoltari“

Sindri Sverrisson skrifar
Sir David Beckham og Victoria kona hans voru saman við athöfnina í dag.
Sir David Beckham og Victoria kona hans voru saman við athöfnina í dag. Getty/Andrew Matthews

David Beckham er orðinn Sir David Beckham eftir að hann var í dag aðlaður fyrir þjónustu sína í þágu fótboltans og bresks samfélags.

Karl Bretakonungur aðlaði Beckham við hátíðlega athöfn í Berkshire í dag. Victoria kona hans og foreldrarnir Sandra og Ted voru öll viðstödd í Windsor-kastalanum.

„Ég gæti ekki verið stoltari. Fólk veit hversu þjóðrækinn ég er. Ég elska landið mitt,“ sagði Beckham samkvæmt BBC.

„Ég er svo heppinn að hafa ferðast um allan heim og allt sem fólk vill ræða við mig um er konungsveldið okkar. Það gerir mig stoltan,“ sagði Beckham.

Victoria, sem hlaut OBE-orðuna árið 2017 vegna framlags til tískuiðnaðarins, hannaði og bjó til jakkafötin sem eiginmaður hennar klæddist í dag og þau vöktu lukku:

„[Karl konungur] var nokkuð hrifinn af jakkafötunum mínum,“ sagði Beckham og bætti við:

„Hann er glæsilegast klæddi maður sem ég þekki, svo hann hefur veitt mér innblástur fyrir útlit mitt í gegnum árin og hann veitti mér svo sannarlega innblástur fyrir þetta útlit.“

Sir David Beckham með eiginkonu sinni og foreldrunum Ted og Söndru við Windsor-kastala í dag.Getty/Andrew Matthews

Beckham varð heimsfrægur sem einn af ungu leikmönnunum sem slógu í gegn með Manchester United á tíunda áratug síðustu aldar. Hann lék 115 landsleiki fyrir England og bar fyrirliðabandið á árunum 2000-2006. Hann fór meðal annars með enska landsliðinu á þrjú heimsmeistaramót og tvö Evrópumót.

Beckham lék með aðalliði United í ellefu ár en var svo seldur til Real Madrid árið 2003. Þar lék hann í fjögur ár og svo með LA Galaxy í Bandaríkjunum, AC Milan og loks PSG þar sem hann lauk ferlinum árið 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×