Fótbolti

Sambandsdeildin | Logi í sigur­liði og Crystal Palace lá á heima­velli

Árni Jóhannsson skrifar
Logi Tómasson fagnar með liðsfélögum sínum í Samsunspor í kvöld.
Logi Tómasson fagnar með liðsfélögum sínum í Samsunspor í kvöld. Vísir / Getty

Önnur umferð Sambandsdeildar Evrópu fór fram í dag. Logi Tómasson byrjaði í sigri Samsunspor á Dynamo Kiev á heimavelli en öðrum Íslendingaliðum gekk verr í sínum leikjum. Þá litu óvænt úrslit dagsins ljós í Lundúnum þegar Crystal Palace tapaði fyrir AEK Larnaca.

Það tók Samsunspor ekki nema tæpar 2 mínútur að komast yfir gegn Dynamo Kiev í kvöld þegar Anthony Musaba skoraði eftir að gestirnir úr Kænugarði töpuðu boltanum á slæmum stað. Marius tvöfaldaði forskot heimamanna áður en Daninn Carlo Holse innsiglaði sigurinn um miðjan seinni hálfleik. Logi Tómasson spilaði allan leikinn og komst vel frá sínu en það mæddi lítið á vörn heimamanna.

Eftir tvær umferðir er Samsunspor með fullt hús stiga og sitja í fimmta sæti. Liðið á eftir að fá á sig mark en búið að skora fjögur.

Gísli Gottskálk Þórðarson byrjaði fyrir Lech Poznan sem tapaði fyrir Lincoln Red Imps frá Gíbraltar. Leikið var á Gíbraltar og fyrirfram var búist við sigri Pólverjanna. Gísla var skipt út af á 72. mínútu en heimamenn unnu 2-1 og skoruðu sigurmarkið á 88. mínútu.

Crystal Palace náði ekki að fylgja eftir góðri byrjun í Sambandsdeildinni en þeir lutu í gras fyrir AEK Larnaca frá Kýpur á Selhurst Park. Gestirnir komust yfir á 51. mínútu þegar Riad Bajic skoraði.

Guðmundur Þórarinsson kom inn á á 73. mínútu fyrir Noah sem gerði 1-1 jafntefli við Universitatea Craiova í Rúmeníu. Noah er í 10. sæti Sambandsdeildarinnar með fjögur stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×