Erlent

Hamasliðar til­búnir að sleppa gíslum og láta völd af hendi

Agnar Már Másson skrifar
Hamasliðar segjast tilbúnir að leysa alla gísla, lifandi og látna, úr haldi.
Hamasliðar segjast tilbúnir að leysa alla gísla, lifandi og látna, úr haldi. Vísir

Hamassamtökin segjast tilbúin að leysa alla ísraelska gísla úr haldi gegn því að Ísraelar bindi enda á stríðið á Gasaströndinni og dragi her sinn að öllu leyti af svæðinu. 

Þetta verði gert samkvæmt friðarplani Donalds Trumps Bandaríkjaforseta en samtökin gera samt nokkrar athugasemdir við áætlun forsetans.

„Í þessu samhengi staðfestir hreyfingin vilja sinn til að fara beint í viðræður í gegnum milligöngumenn til að ræða smáatriðin í þessu samkomulagi,“ skrifa hryðjuverkasamtökin á Telegram að því er Al Jazeera greinir frá. 

Þar kom einnig fram að samtökin samþykki að láta völd sín á Gasa af hendi til óháðrar palestínskrar stofnunnar, „samkvæmt samþykki palestínsku þjóðarinnar og stuðningi araba- og íslamsríkja.“ 

Leiðtogar Hamas hafa áður sagst tilbúnir til að sleppa takinu á stjórnartaumunum á Gasa en hafa ekki viljað leggja niður vopn sín og ekkert um það kemur fram í þessari nýju yfirlýsingu. 

Trump hafði gefið leiðtogum Hamas frest til sunnudagskvölds til að samþykkja friðartillögur hans, annars stæðu þeir frammi fyrir helvíti á jörð.

Tillögur hans sem sneru að því að binda enda á átökin á Gasaströndinni þóttu að miklu leyti halla á Hamas en margar af þessum þeim tillögum hafa sést áður í fyrri vopnahléstillögum á undanförnum tveimur árum.

Þær fólu meðal annars í sér að vígamenn samtakanna leggi niður vopn hafa þeir ávallt hafnað þeirri kröfu í gegnum árin. 

Fréttin verður uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×