Enski boltinn

Segir að United hafi keypt rangan markvörð: „Aldrei heyrt um hann“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Senne Lammens gekk í raðir Manchester United frá Antwerp á lokadegi félagaskiptagluggans.
Senne Lammens gekk í raðir Manchester United frá Antwerp á lokadegi félagaskiptagluggans. getty/Manchester United

Peter Schmeichel, sem varði mark Manchester United á 10. áratug síðustu aldar, segir að félagið hafi gert mistök í markvarðarkaupum í nýafstöðnum félagaskiptaglugga.

Á lokadegi félagaskiptagluggans keypti United Senne Lammens frá Antwerp. André Onana fór hins vegar á láni til Trabzonspor í Tyrklandi.

United var orðað við þekktari markverði, eins og Gianluigi Donnarumma og Emiliano Martínez, en festi kaup á hinum 23 ára Lammens. Schmeichel var ekki hrifinn af þeirri ákvörðun.

„Við hefðum átt að kaupa Emi Martínez. Raunar hefðum við átt að sækja Gianluigi Donnarumma þegar við höfðum tækifæri til þess,“ sagði Schmeichel.

„Varðandi Martínez virtist allt klárt og það virtust ætla að vera góðar fréttir því hann er nákvæmlega markvörðurinn sem United þarf.“

Pressan hjá United engu lík

Lammens er ekki nálægt því jafn stórt nafn og Martínez eða Donnarumma og raunar vissi Schmeichel ekkert hver hann var. 

„Ef ég á að vera heiðarlegur hafði ég aldrei heyrt um hann áður en hann var orðaður við United,“ sagði Daninn.

„Ég veit að tölfræðin hans er frábær en það var í belgísku deildinni þar sem þeir enduðu í 5. sæti. Tölfræðin sýnir ekki hvernig þú bregst við eftir mistök eða tekst á við pressuna hjá Manchester United. Hún er ólík öllu öðru.“

Lammens sat á bekknum þegar United tapaði 3-0 fyrir Manchester City í borgarslagnum um síðustu helgi. Altay Bayindir stóð á milli stanganna eins og hann hefur gert í öllum fjórum leikjum United í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

Næsti leikur United er gegn Chelsea á Old Trafford á morgun. Rauðu djöflarnir eru í 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með fjögur stig.

Leikur United og Chelsea hefst klukkan 16:30 á morgun og verður sýndur beint á Sýn Sport.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×