Erlent

Út­nefnd for­sætis­ráð­herra Nepal fyrst kvenna

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Karki sór embættiseið í gærkvöldi.
Karki sór embættiseið í gærkvöldi. AP

Sushila Karki hefur verið útnefnd forsætisráðherra Nepal, fyrst kvenna. Mannskæð mótmæli og óeirðir hafa brotist út í landinu síðustu daga og ráðherrar í framhaldinu sagt af sér.

Mótmælin brutust út í kjölfar þess að 26 samfélagsmiðlar voru bannaðir í síðustu viku. Olíu var hent á eldinn þegar lögreglumenn skutu á mannfjöldann sem mótmælti við þinghúsið á mánudag og drápu 21 manns. Langstærstur hluti mótmælendanna eru undir þrítugu, samkvæmt umfjöllun Guardian.

Vopnaðir hermenn stóðu vörð á götum Katmandú í vikunni eftir að íbúum var skipað að halda sig heima fyrir. Íslendingur á ferðalagi í borginni lýsti óeirðarástandinu og óvissu í samtali við blaðamann á miðvikudag. 

Khadga Prasad Oli fyrrverandi forsætisráðherra landsins sagði af sér á þriðjudag en þá höfðu þrír aðrir ráðherrar þegar sagt af sér. 

Við Oli tekur Sushila Karki, fyrrverandi forseti hæstaréttar Nepals. Hún kemur til með að stýra starfsstjórn þar til þjóðin gengur til þingkosninga í mars. 

Karki, 73 ára, er landsþekkt í Nepal sem ötul baráttukona gegn spillingu. Hún varð forseti hæstaréttar landsins fyrst kvenna árið 2016 og dæmdi í mörgum þungavigtardómum á hendur nepölskum stjórnmálamönnum í spillingarmálum. Eftir að hún lauk störfum hjá hæstarétti varð hún ein helsta talskona landsins gegn spillingu.

Við val á nýjum forsætisráðherra bauð Ram Chandra Poudel, forseti Nepal, mótmælendum að taka þátt í viðræðum. Þeir beittu sér fyrir útnefningu Karki.


Tengdar fréttir

Kveikt í þinghúsinu og forsætisráðherrann hrökklast frá

Mótmælendur í Nepal lögðu eld að þinghúsinu í höfuðborginni Katmandú í dag. Afsögn forsætisráðherrans gerði lítið til að lægja öldurnar eftir að lögreglumenn skutu fjölda mótmælenda til bana og særðu enn fleiri í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×