Uppgjörið: Valur - Tindastóll 6-2 | Fanndís fór hamförum Hörður Unnsteinsson skrifar 14. september 2025 16:31 Fanndís Friðriksdóttir fór á kostum í dag. vísir/Anton Valur vann sannfærandi sigur á Tindastól á Hlíðarenda í dag, í Bestu deild kvenna í fótbolta. Lokatölur 6-2 í kaflaskiptum en bráðfjörugum leik. Fjörið hófst strax á 6. mínútu þegar heimakonur skoruðu fyrsta mark leiksins. Þá átti Jasmín Erla Ingadóttir fyrirgjöf að marki sem norðankonur bægðu frá, en boltinn endaði beint fyrir framan Arnfríði Auði Arnardóttur sem smellti boltanum upp í vinkilinn. Frábært mark hjá Arnfríði og Valskonur komnar í forystuna. Þær héldu áfram uppteknum hætti og bættu við forystuna strax á 17. mínútu. Þá sparkaði Tinna Brá langt frá marki Valskvenna, spyrnu sem varnarlína Tindastóls réð illa við og boltinn barst fyrir fætur Fanndísar Friðriksdóttur sem gerði engin mistök og lagði boltann framhjá Genevieve í markinu. Valskonur tveim mörkum yfir og með tögl og haldir á leiknum. Tindastóll fékk þó líflínu í leiknum á 29. mínútu þegar Makala Woods skóflaði boltanum yfir línuna eftir fyrstu hornspyrnu gestanna í leiknum. Við markið virtist koma eilítill skjálfti í Valskonur og þær skagfirsku gengu á lagið og jöfnuðu metin aðeins átta mínútum síðar. Þá kom löng aukaspyrna inn á teig heimakvenna sem Tinna Brá misreiknaði í markinu og boltinn barst beint fyrir fætur Aldísar Maríu Jóhannsdóttir sem gat ekki annað en skorað. Leikurinn algjörlega búinn að snúast á haus og staðan í hálfleik 2-2. Síðari hálfleikurinn hófst á svipaðan hátt og sá fyrri. Valskonur meira með boltann og ógnuðu meira í opnum leik. Á 54. mínútu braust Fanndís Friðriksdóttir upp vinstri vænginn og smellti boltanum stöngina og inn á nærstöng framhjá Genevieve í markinu. Ameríski markvörðurinn eflaust vonsvikin með sjálfan sig að hafa ekki gert betur þar. 3-2 fyrir Val. Þetta mark reyndist vendipunktur leiksins og Valskonur létu kné fylgja kviði og bættu öðru marki við nokkrum mínútum síðar þegar Berglind Rós Ágústsdóttir skoraði með góðu skoti fyrir utan teig. Fanndís fullkomnaði svo þrennu sína með fallegasta marki leiksins á 73. mínútu þegar hún lék boltanum inn á teig Tindastóls og sneri boltann svo snyrtilega upp í vinkilinn fjær. Á 20 mínútna kafla voru Valskonur komnar í 5-2 og leiknum lokið. Síðasta mark leiksins kom svo í uppbótartíma þegar María Dögg Jóhannesdóttir varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark eftir fyrirgjöf Helenu Ósk Hálfdánardóttur. 6-2 sigur Valskvenna staðreynd og þær lyfta sér upp í fjórða sæti deildarinnar. Atvik leiksins Þriðja mark Valskvenna gerði út um leikinn og kristallaði muninn á liðunum tveimur. Valskonur með sinn aragrúa af leikmönnum að velja úr gátu treyst á einstaklingsframtak frá einni af okkar bestu knattspyrnukonum til að opna þennan leik. Skotið hjá Fanndísi á nærstöngina á 54. mínútu virtist gera algjörlega út um vonir Stólana og þrjú mörk til viðbótar fylgdu í kjölfarið. Stjörnur og skúrkar Fanndís Friðriksdóttir sýndi hvers hún er megnug í þessum leik. Þrjú mörk og hvert öðru fallegra. Fyrsta markið afgreiddi hún snyrtilega eftir að hafa komist ein í gegn, annað mark bylmingsskot á nærstöng og það þriðja smurði hún upp í fjærhornið eftir að hafa skorið inn á völlinn. Algjör „vintage“ frammistaða frá einni af okkar bestu knattspyrnukonum. Dómarar leiksins Brynjar Þór og hans teymi voru með allt í teskeið. Ekki oft sem að fyrrum serbnesk landsliðskona mannar dómarateymi á Íslandi, Tijana Krstic á 24 landsleiki fyrir Serbíu og er fjórfaldur landsmeistari þar í landi. Hún stóð sig með prýði sem aðstoðardómari hér í dag. Stemming og umgjörð Ég er nokkuð viss um að vöfflurnar í Valsheimilinu séu þær bestu á landinu. Það er líklegt að ég fari að heimta að fá að mæta á hvern einasta leik hér á Hlíðarenda – „fyrir vöfflurnar“. Allt upp á 10 hér í dag að vanda. „Erum mjög fáar fyrir norðan á æfingum“ Bryndís Rut Haraldsdóttir fyrirliði átti fínan leik í liði Tindastóls í dag og hún var ósátt með byrjun liðsins í síðari hálfleiknum. „Ég er svekkt. Við áttum fínan fyrri hálfleik og komum til baka sem sýnir karakter. Við lendum 2-0 undir og jöfnum þær. Við hefðum bara átt að starta betur í seinni hálfleik, það eru of mörg mörk sem við fáum á okkur í hreinskilni sagt. Það eru svona litlir hlutir sem við getum einfaldlega lagað. Ég get ekkert verið ósátt, við gáfum allt í þetta en það gekk ekki með okkur í dag.“ Hvernig metur Bryndís trúna í liðinu fyrir lokaleiki liðsins? „Það er bara einn leikur í einu, það er bara næsti leikur. Við fókuserum núna á hann. Við erum náttúrulega ekki með stóran hóp, það eru allar að gefa allt í þetta.“ Halldór Jón Sigurðsson þjálfari liðsins tæmdi bekkinn í dag, Tindastóll mætti aðeins með 15 stelpur á skýrslu og Donni var í yfirvinnu á hliðarlínunni að dæla út verkjalyfjum á sínar konur til að halda þeim gangandi. Aðstæður liðsins eru því ansi erfiðar: „Ég get alveg viðurkennt það að þetta er mjög erfitt. Við erum með mjög þunnan hóp, helmingur þeirra er hér í Reykjavík þannig að við erum mjög fáar fyrir norðan á æfingum á Króknum. Við erum því að reyna púsla okkur saman rétt fyrir leiki og erum í töluvert öðruvísi stöðu en örugglega flest önnur lið. Það tekur klárlega á fyrir alla en við gerum okkar besta og erum vön stöðunni sem við erum í. Nú er bara að halda áfram, hætta þessu væli og einbeita sér að FH sem verður skemmtilegt verkefni.“ Besta deild kvenna Valur Tindastóll
Valur vann sannfærandi sigur á Tindastól á Hlíðarenda í dag, í Bestu deild kvenna í fótbolta. Lokatölur 6-2 í kaflaskiptum en bráðfjörugum leik. Fjörið hófst strax á 6. mínútu þegar heimakonur skoruðu fyrsta mark leiksins. Þá átti Jasmín Erla Ingadóttir fyrirgjöf að marki sem norðankonur bægðu frá, en boltinn endaði beint fyrir framan Arnfríði Auði Arnardóttur sem smellti boltanum upp í vinkilinn. Frábært mark hjá Arnfríði og Valskonur komnar í forystuna. Þær héldu áfram uppteknum hætti og bættu við forystuna strax á 17. mínútu. Þá sparkaði Tinna Brá langt frá marki Valskvenna, spyrnu sem varnarlína Tindastóls réð illa við og boltinn barst fyrir fætur Fanndísar Friðriksdóttur sem gerði engin mistök og lagði boltann framhjá Genevieve í markinu. Valskonur tveim mörkum yfir og með tögl og haldir á leiknum. Tindastóll fékk þó líflínu í leiknum á 29. mínútu þegar Makala Woods skóflaði boltanum yfir línuna eftir fyrstu hornspyrnu gestanna í leiknum. Við markið virtist koma eilítill skjálfti í Valskonur og þær skagfirsku gengu á lagið og jöfnuðu metin aðeins átta mínútum síðar. Þá kom löng aukaspyrna inn á teig heimakvenna sem Tinna Brá misreiknaði í markinu og boltinn barst beint fyrir fætur Aldísar Maríu Jóhannsdóttir sem gat ekki annað en skorað. Leikurinn algjörlega búinn að snúast á haus og staðan í hálfleik 2-2. Síðari hálfleikurinn hófst á svipaðan hátt og sá fyrri. Valskonur meira með boltann og ógnuðu meira í opnum leik. Á 54. mínútu braust Fanndís Friðriksdóttir upp vinstri vænginn og smellti boltanum stöngina og inn á nærstöng framhjá Genevieve í markinu. Ameríski markvörðurinn eflaust vonsvikin með sjálfan sig að hafa ekki gert betur þar. 3-2 fyrir Val. Þetta mark reyndist vendipunktur leiksins og Valskonur létu kné fylgja kviði og bættu öðru marki við nokkrum mínútum síðar þegar Berglind Rós Ágústsdóttir skoraði með góðu skoti fyrir utan teig. Fanndís fullkomnaði svo þrennu sína með fallegasta marki leiksins á 73. mínútu þegar hún lék boltanum inn á teig Tindastóls og sneri boltann svo snyrtilega upp í vinkilinn fjær. Á 20 mínútna kafla voru Valskonur komnar í 5-2 og leiknum lokið. Síðasta mark leiksins kom svo í uppbótartíma þegar María Dögg Jóhannesdóttir varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark eftir fyrirgjöf Helenu Ósk Hálfdánardóttur. 6-2 sigur Valskvenna staðreynd og þær lyfta sér upp í fjórða sæti deildarinnar. Atvik leiksins Þriðja mark Valskvenna gerði út um leikinn og kristallaði muninn á liðunum tveimur. Valskonur með sinn aragrúa af leikmönnum að velja úr gátu treyst á einstaklingsframtak frá einni af okkar bestu knattspyrnukonum til að opna þennan leik. Skotið hjá Fanndísi á nærstöngina á 54. mínútu virtist gera algjörlega út um vonir Stólana og þrjú mörk til viðbótar fylgdu í kjölfarið. Stjörnur og skúrkar Fanndís Friðriksdóttir sýndi hvers hún er megnug í þessum leik. Þrjú mörk og hvert öðru fallegra. Fyrsta markið afgreiddi hún snyrtilega eftir að hafa komist ein í gegn, annað mark bylmingsskot á nærstöng og það þriðja smurði hún upp í fjærhornið eftir að hafa skorið inn á völlinn. Algjör „vintage“ frammistaða frá einni af okkar bestu knattspyrnukonum. Dómarar leiksins Brynjar Þór og hans teymi voru með allt í teskeið. Ekki oft sem að fyrrum serbnesk landsliðskona mannar dómarateymi á Íslandi, Tijana Krstic á 24 landsleiki fyrir Serbíu og er fjórfaldur landsmeistari þar í landi. Hún stóð sig með prýði sem aðstoðardómari hér í dag. Stemming og umgjörð Ég er nokkuð viss um að vöfflurnar í Valsheimilinu séu þær bestu á landinu. Það er líklegt að ég fari að heimta að fá að mæta á hvern einasta leik hér á Hlíðarenda – „fyrir vöfflurnar“. Allt upp á 10 hér í dag að vanda. „Erum mjög fáar fyrir norðan á æfingum“ Bryndís Rut Haraldsdóttir fyrirliði átti fínan leik í liði Tindastóls í dag og hún var ósátt með byrjun liðsins í síðari hálfleiknum. „Ég er svekkt. Við áttum fínan fyrri hálfleik og komum til baka sem sýnir karakter. Við lendum 2-0 undir og jöfnum þær. Við hefðum bara átt að starta betur í seinni hálfleik, það eru of mörg mörk sem við fáum á okkur í hreinskilni sagt. Það eru svona litlir hlutir sem við getum einfaldlega lagað. Ég get ekkert verið ósátt, við gáfum allt í þetta en það gekk ekki með okkur í dag.“ Hvernig metur Bryndís trúna í liðinu fyrir lokaleiki liðsins? „Það er bara einn leikur í einu, það er bara næsti leikur. Við fókuserum núna á hann. Við erum náttúrulega ekki með stóran hóp, það eru allar að gefa allt í þetta.“ Halldór Jón Sigurðsson þjálfari liðsins tæmdi bekkinn í dag, Tindastóll mætti aðeins með 15 stelpur á skýrslu og Donni var í yfirvinnu á hliðarlínunni að dæla út verkjalyfjum á sínar konur til að halda þeim gangandi. Aðstæður liðsins eru því ansi erfiðar: „Ég get alveg viðurkennt það að þetta er mjög erfitt. Við erum með mjög þunnan hóp, helmingur þeirra er hér í Reykjavík þannig að við erum mjög fáar fyrir norðan á æfingum á Króknum. Við erum því að reyna púsla okkur saman rétt fyrir leiki og erum í töluvert öðruvísi stöðu en örugglega flest önnur lið. Það tekur klárlega á fyrir alla en við gerum okkar besta og erum vön stöðunni sem við erum í. Nú er bara að halda áfram, hætta þessu væli og einbeita sér að FH sem verður skemmtilegt verkefni.“