Erlent

Konungssinninn Anutin Charnvirakul nýr for­sætis­ráð­herra Taí­lands

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Konungssinninn Anutin Charnvirakul er nýr forsætisráðherra Taílands.
Konungssinninn Anutin Charnvirakul er nýr forsætisráðherra Taílands. epa/Rungroj Yongrit

Taílenska þingið hefur valið stjórnmála- og athafnamanninn Anutin Charnvirakul til að verða næsti forsætisráðherra landsins. Hann verður þriðji forsætisráðherrann á aðeins tveimur árum.

Stjórnlagadómstóll vék í síðustu viku Paetongtarn Shinawatra, sem er meðlimur einnar valdamestu fjölskyldu Taílands, úr forsætisráðherraembættinu vegna þess hvernig hún höndlaði landamæraerjur landsins við Kambódíu.

Þetta gerðist í kjölfar þess að símtali milli hennar og við Hun Sen, þáverandi leiðtoga Kambódíu, var lekið en þar heyrðist Shinawatra kalla kambódíska leiðtogann „frænda“ og gagnrýna taílenska herinn.

Hin 39 ára Paetongtarn er dóttir Thaksin Shinawatra og frænka Yingluck Shinawatra, sem bæði voru forsætisráðherrar en var steypt af stóli árin 2006 og 2014.

Shinawatra-fjölskyldan hefur þannig lengi farið fyrir flokknum Pheu Thai, sem margir gerðu ráð fyrir að myndi velja næsta forsætisráðherra. Íhaldsflokknum Bhumjaithai tókst hins vegar að tryggja nógu mörg atkvæði til að koma Charnvirakul að.

Charnvirakul er staðfastur konungssinni, ólíkt Shinawatra-fjölskyldunni.

Greinendur segja þó ekki endilega sjá fyrir endan á pólitískum óstöðugleika í landinu, þar sem margar stjórnir hafa verið settar af ýmist af dómstólum eða hernum.

Það vakti athygli þegar Thaksin Shinawatra yfirgaf landið í gær en hann sætir ákæru fyrir spillingu og að rægja konungsveldið. Hann greindi frá því í morgun að hann hefði flogið til Dúbaí til að gangast undir læknismeðferð og myndi snúa aftur fyrir réttarhöldin, sem hefjast 9. september næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×