Erlent

„Kynlífsdúkka“ af ungu barni meðal gagna máls gegn fyrr­verandi ráð­herra

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Henrik Sass Larsen er fyrrverandi viðskiptaráðherra Danmerkur.
Henrik Sass Larsen er fyrrverandi viðskiptaráðherra Danmerkur. Vísir/Getty

Dómur verður kveðinn upp í dag í máli Henrik Sass Larsen, fyrrverandi viðskiptaráðherra Sósíaldemókrata í Danmörku. Sass Larsen er ákærður fyrir að hafa haft í fórum sínum yfir sex þúsund myndir og tvö þúsund myndbönd af barnaníðsefni. Þar að auki fannst á heimili ráðherrans fyrrverandi dúkka af barni, ætluð til kynferðislegra athafna.

Fram kemur í umfjöllun TV 2 að löng röð hafi myndast við dómshúsið í Kaupmannahöfn í morgun en dómshald fer fram í einum stærsta sal réttarins. Mikill áhugi er á málinu meðal danskra fjölmiðla sem og almennings en stærstu fjölmiðlar landsins halda úti beinni textalýsingu af því sem fram fer í réttarsal í dag. Ljósmynd af umræddri dúkku er meðal gagna málsins sem sýnd var í dómsal í morgun.

Sjá einnig: Fundu þúsundir mynda, myndskráa og kynlífsdúkku sem lítur út eins og barn

Fram kom í máli saksóknara að ljóst væri að dúkkan væri af barni, ekki eldra en tveggja eða þriggja ára. Ekki færi á milli mála til hvers hún væri ætluð, en á henni er op á milli leggja. Dúkkan fannst í þvottakörfu á heimili Sass Larsen.

Búist er við að niðurstaða dómsins verði kunngjörð síðdegis en saksóknari fer fram á að minnsta kosti fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi yfir Sass Larsen. Málsvörn hans byggist meðal annars á því að hann hafi haft myndefnið í fórum sínum til að rannsaka ofbeldi sem hann hafi sjálfur orðið fyrir sem barn.

Henrik Sass Larsen var þingmaður fyrir Sósíaldemókrata í Danmörku í nítján ár, frá árinu 2000 til 2019. Hann gegndi meðal annars embætti þingflokksformanns og var viðskiptaráðherra í tvö ár frá 2013 til 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×