Erlent

Ís­land enn friðsælast í sí­fellt versnandi heimi

Samúel Karl Ólason skrifar
Fólk spókar sig í sólinni á Austurvelli.
Fólk spókar sig í sólinni á Austurvelli. Vísir/Anton

Ísland er enn eina ferðina friðsælasta lands heims, samkvæmt nýrri skýrslu Global Peace Index. Ríkið hefur vermt efsta sæti listans frá árinu 2008. Síðan byrjað var að gefa skýrsluna út á ári hverju hefur heimurinn þó aldrei verið minna friðsæll.

Skýrslan er gefin út af hugveitunni Institute for Economics and Peace og er þetta í nítjánda sinn sem hún er gefin út.

Í skýrslunni segir að dregið hafi úr friði í heiminum samfleytt frá árinu 2014. Hernaðarátök eigi sér nú stað á 59 mismunandi stöðum i heiminum, með aðkomu 78 mismunandi ríkja, og hafi ekki verið fleiri frá endalokum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Tekið er fram í inngangi skýrslunnar að heimurinn sé að nálgast vendipunkt. Aukin efnahagsleg upplausn, aukin hervæðing og aukin samkeppni stórvelda sé að skapa aðstæður fyrir umfangsmikil hernaðarátök og tilheyrandi eyðileggingu og hörmungar.

Kort frá Global Peaci Index.

Ísland best í heimi

Eins og áður segir er Ísland friðsælasta ríki heims, eins og svo oft áður. Írland er í öðru sæti eins og í fyrra. Þá er Nýja Sjáland í þriðja sæti listans og hoppar því upp um tvö sæti milli ára. Austurríki er í fjórða sæti og Sviss í fimmta en bæði ríkin féllu um eitt sæti.

Þar á eftir koma Singapúr, Portúgal, Danmörk, Slóvenía og Finnland.

Á botni listans eru Rússland, Úkraína, Súdan, Austur-Kongó, Jemen, Afganistan, Sýrland, Suður-Súdan, Ísrael, Malí og Mjanmar.

Meðal þeirra 23 atriða sem röðun skýrslunnar byggir á eru glæpatíðni, átök, pólitískur óstöðugleiki, hryðjuverkatíðni og ýmislegt annað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×