Innlent

Jökul­hlaupið í rénun

Auðun Georg Ólafsson skrifar
Vatnshæðin við brúna yfir Hvítá er núna komin niður í það sem hún var fyrir atburðina.
Vatnshæðin við brúna yfir Hvítá er núna komin niður í það sem hún var fyrir atburðina. Veðurstofa Íslands.

Jökulhlaupið úr Hafrafellslóni vestan Langjökuls er gengið yfir að mestu. Áin reis fyrir helgi rétt fyrir ofan Húsafell en vöxturinn var sagður mun hægari en í síðasta stóra hlaupi á svæðinu árið 2020. Áfram verður fylgst með svæðinu. 

Núna er vatnshæðin við brúna yfir Hvítá komin niður í það sem hún var fyrir atburðina. Bergur Einarsson, fagstjóri vatnarannsókna hjá Veðurstofunni segir stöðuga lækkun vera á vatnsyfirborði en fylgst verði þó áfram með mælingum við Hvítárbrú á sólarhringsvakt Veðurstofu.

„Þetta var óvenjulegt hlaup og óvenjulegir rennslishættir,“ segir Bergur. „Það kom öðruvísi fram en síðasta umtalsverða hlaup sem varð þarna 2020 en þetta var þó talsvert rúmmálsmeiri atburður núna. Rennslið á þessu var mjög sérstakt þar sem tveir púlsar komu fram aðfaranótt sunnudags sem er frekar óvenjuleg og athyglisverð hegðun.

Hvað með framhaldið?

„Nú er spurning hvort lónið nái að þéttast aftur eða stíflan, sem myndar lónið upp við jökulinn, fer að safna aftur í lón. Við fengum hlaup 2020 og svo kom lítið hlaup 2021. Þetta lón varð til árin þar á eftir við jaðar jökulsins en hlaup kom ekki úr því. Þetta virðist flókin mynd og margar breytur sem hafa áhrif á hvort að lón hlaupi og hvers konar rennsli eru þá úr því.“

Staðan er semsagt þannig núna að þetta er gengið yfir?

„Já. Allur þessi atburður er í mikilli rénun en það spurning hvort það komi einhver hali eftir á hlaupinu. Meginatburðurinn er genginn yfir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×