Enski boltinn

Potter niðurlútur: „Ekki margt já­kvætt“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
West Ham United hefur ekki átt góðu gengi að fagna undir stjórn Grahams Potter.
West Ham United hefur ekki átt góðu gengi að fagna undir stjórn Grahams Potter. epa/VINCE MIGNOTT

Graham Potter, knattspyrnustjóri West Ham United, var niðurlútur eftir 1-5 tap fyrir Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Hann sagði varnarleik Hamranna ekki vera nógu góðan.

„Ég er ótrúlega vonsvikinn með úrslitin. Við byrjuðum vel, skoruðum frábært mark en svo fengum við ódýrt mark á okkur og það gaf sennilega tóninn fyrir kvöldið,“ sagði Potter eftir leikinn á Lundúnaleikvanginum.

„Við erum að spila við topp lið og verðum að gera okkur grein fyrir því en hvernig við fengum mörkin á okkur gerði þetta ómögulegt fyrir okkur. Við verðum að gera betur. Það er svo einfalt.“

Félagaskiptaglugginn er enn opinn og Potter segir ekki útilokað að West Ham láti til sín taka á honum áður en honum verður lokað. Meira þurfi þó til.

„Auðvitað erum við alltaf að leita en þetta snýst um meira um grunnatriðin. Við verðum að gera liðum erfiðara fyrir að skora gegn okkur. Mörkin eru of ódýr. Við vorum að spila við topp lið og ef þeir hefðu opnað okkur hvað eftir annað, allt í lagi, en þetta var ekki þannig þótt þetta hafi auðvitað verið erfitt kvöld fyrir okkur,“ sagði Potter.

„Við erum vonsviknir með mörkin sem við fengum á okkur og úrslitin sömuleiðis.“

Klippa: Viðtal við Graham Potter

Potter sá ekki margt jákvætt við frammistöðu Hamranna í kvöld en tók þó undir með blaðamanni að Kyle Walker-Peters hefði átt ágætis spretti í seinni hálfleik.

„Mér líður ekki eins og það hafi verið margt jákvætt en það eru alltaf einstaklingar sem héldu áfram. Malick Diouf á vinstri kantinum. Hann er ungur leikmaður sem var að þreyta frumraun sína á heimavelli en við erum bara vonsviknir í augnablikinu og það er ekki margt jákvætt sem við getum litið á,“ sagði Potter.

„Við verðum að vera klárir fyrir leikinn gegn Wolves og undirbúningurinn hefst á morgun. Við verðum að halda áfram.“

West Ham hefur tapað báðum leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni það sem af er tímabili. Hamrarnir hafa einungis skorað eitt mark en fengið á sig átta.

Viðtalið við Potter má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×