Upp­gjörið: Valur - Vestri 0-1 | Vestri bikar­meistari í fyrsta sinn

Andri Már Eggertsson og Ágúst Orri Arnarson skrifa
Vestri er bikarmeistari.
Vestri er bikarmeistari. vísir / ernir

Vestri er bikarmeistari í fyrsta sinn í sögu félagsins eftir 1-0 sigur gegn Val í úrslitaleik á Laugardalsvelli. Jeppe Pedersen skoraði eina mark leiksins með stórkostlegu langskoti, Valsmenn voru síðan með völdin á vellinum en urðu fyrir áfalli þegar eldri Pedersen bróðirinn Patrick var borinn meiddur af velli.

Vestri hefur tvisvar áður komist í undanúrslitin en var að spila sinn fyrsta bikarúrslitaleik á Laugardalsvelli. Gríðarlega stór stund í sögu félagsins og stuðningsmenn hefðu ekki getað beðið um betri frammistöðu frá leikmönnum, sem spiluðu eins og lífið sjálft lægi undir.

Verðskuldaður sigur skilaði sér eftir mikinn varnarleik og gleðin skein úr augum hvers einasta manns sem á ættir að rekja til Vestfjarðanna.

Fyrirliðinn Elmar Atli Garðarsson byrjaði á bekknum en kom inn á undir lokin og lyfti síðan titlinum. vísir / ernir

Róleg byrjun breyttist fljótt í fjör 

Vestramenn lágu í skotgröfunum fyrstu tíu mínútur til leiks, til að átta sig á aðstæðum og fá tilfinningu fyrir andstæðingnum.

Á elleftu mínútu fékk Ágúst Eðvald algjört dauðafæri, á silfurfati frá varnarmönnum Vals.

Markus Lund hreinsaði háa sendingu óvart í andlitið á hinum miðverðinum, Hólmari Erni. Ágúst slapp inn fyrir og sólaði markmanninn Fredrik Schram en skaut boltanum svo í hliðarnetið.

Vestramenn sóttu í sig veðrið sem fékkst úr þessu færi og urðu hættulegri aðilinn.

Óvæntur Pedersen sem skoraði

Ísfirðingar tóku forystuna á 24. mínútu með hreint stórbrotnu marki. Þeir voru í vandræðum með að koma boltanum inn á vítateiginn og þá tók Jeppe Pedersen bara til sinna ráða.

Jeppe sýndi stóra bróður sínum hvernig á að gera þetta og skoraði úr stórkostlegu skoti, af tæplega þrjátíu metra færi. Algjör negla sem söng í netinu.

Pedersen fagnar markinu. vísir / ernir

Valur tók völdin og Vestri varðist

Eftir að hafa komist yfir féllu Vestramenn neðar völlinn og Valsmenn tóku völdin.

Tryggvi Hrafn og Bjarni Mark buðu sóknarmönnum Vals sannkallaða veislu með sínum fyrirgjöfum, frábærir boltar frá hægri og vinstri til skiptis en sóknarmenn Vals gæddu sér ekki á veislunni.

Bjarni Mark kom með góða bolta fyrir. vísir / ernir

Vestri stóð síðan einhvern veginn af sér stórskotahríðina sem skall á undir lok fyrri hálfleiks. Markmaðurinn Guy Smit þurfti tvisvar að hafa sig allan við, í seinna skiptið rétt varði hann og boltinn small í stönginni.

Guy Smit varði boltann í stöngina. vísir / ernir

Varnarmenn Vestra þökkuðu honum fyrir það og endurguldu greiðann með því að bjarga á línu eftir eitt skotið, eftir að hafa fengið nokkur í sig áður. Eiginlega ótrúlegt að Valur hafi ekki jafnað fyrir hálfleik.

Vestri varðist af öllum lífs og sálar kröftum. vísir / ernir

Misstu mesta markahrókinn út

Valur byrjaði með boltann í seinni hálfleik og hélt honum nánast þar til lokaflautið gall á meðan Vestri varðist og barðist fyrir lífi sínu.

Valsmenn urðu hins vegar fyrir miklu áfalli á 64. mínútu þegar Patrick Pedersen, mesti markahrókur í sögu íslenska boltans, meiddist og var borinn af velli. Óvíst er um alvarleika meiðslanna að svo stöddu en hann féll til jarðar án snertingar, virtist sárþjáður og hélt um hásinina.

Patrick Pedersen var borinn af velli. vísir / ernir

Eftir að hafa misst sinn mesta markahrók af velli voru Valsmenn ekki eins ógnandi og tókst ekki að skapa neitt sem kallast mætti dauðafæri, þó þeir hafi sannarlega skapað mjög mörg færi.

Vestramenn vörðust virkilega vel enda er sennilega ekkert lið á landinu jafn vel þjálfað í varnaraðgerðum. Sömuleiðis voru þeir klókir, töfðu við hvert tækifæri og gerðu allt sem þeir gátu til að trekkja taugar Valsmanna.

Heilum níu mínútum var bætt við en Vestri hélt út, vann 1-0 sigur og fagnaði fyrsta bikarmeistaratitli í sögu félagsins.

Kampakátir bikarmeistarar.vísir / ernir
Fatai sér ekki eftir því að hafa framlengt samning sinn við Vestra á dögunum. vísir / ernir

Stemningin

Sturluð stemning hjá Vestramönnum á meðan leik stóð og löngu áður en hann hófst líka.

Vestrafólk hitaði upp í Þróttaraheimilinu frá því klukkan þrjú og þegar blaðamaður gekk framhjá var fullt út úr dyrum og alla leið út á götu.

Áhorfendaskarinn mætti síðan snemma til leiks á Laugardalsvelli, hélt uppi stuðinu á meðan liðin hituðu upp og ekki versnaði það þegar leikurinn hófst.

Hvað þá þegar markið var skorað eða leikurinn vannst, sjaldan hefur önnur eins stemning sést á Laugardalsvelli án íslenska landsliðsins.

Stemning hjá Vestramönnum.vísir / ernir

Valsmenn tóku sína upphitun á Ölveri frá því klukkan þrjú og fjölmenni mætti á völlinn til að styðja sitt lið til sigurs en stemningin var ekki í neinni líkingu við það sem sást hinumegin.

Stemning hjá Valsmönnum. vísir / ernir

Atvik leiksins

Óneitanlega hafði það heilmikil áhrif á Val að missa besta út sóknarmann liðsins, og landsins. Patrick Pedersen var borinn af velli og Valur var ekki eins hættulegt eftir það.

Dómarar

Sigurður Hjörtur Þrastarson hélt um flautuna. Patrik Freyr Guðmundsson og Eðvarð Eðvarðsson voru með flöggin. Arnar Þór Stefánsson sá fjórði og eftirlitsmaðurinn var enginn aukvisi. Fyrrum framkvæmdastjóri KSÍ, Klara Bjartmarz, sá um úttektina.

Vel dæmdur leikur hjá Sigurði og hans teymi, spjöldum lyft þegar þess nauðsynlega þurfti en annars ekki.

Ekkert verið að stoppa leikinn og veita mönnum óþarfa tiltal, bara leyft leiknum að flæða og úr varð frábær skemmtun með mikilli baráttu.

Túfa: Svekkjandi en við gáfum allt í þetta og munum nýta sorgina 

Srdjan Tufegzic, þjálfari Vals, var sársvekktur með tapið og segir það ekki skipta neinu máli hvað Valur skapaði mörg færi.

„Ég óska Vestra bara til hamingju með titilinn. Eitt mark, frábært mark hjá Jeppe Pedersen, sem skilur á milli.

Aftur á móti fannst mér við gera allt sem við gátum til að jafna leikinn, fengum færi til þess og ég veit ekki hversu oft þeir björguðu á línu eða hentu sér fyrir boltann.

Þannig að þessi úrslit gefa ekki rétta mynd af leiknum en það skiptir engu máli. Ég óska þeim bara til hamingju og við verðum bara að nota þessa sorg núna í baráttuna sem framundan er.“

Eftir að hafa lent undir var Valur margfalt hættulegri aðilinn og hefði getað skorað oftar en einu sinni, en alltaf tókst Vestramönnum að standa í vegi fyrir þeim.

„Gríðarlega svekkjandi að ná ekki að jafna, heilt yfir vorum við hættulegri og erum nálægt því. Það er ekki auðvelt að skapa færi þegar þú ert með svona múr af leikmönnum fyrir framan þig. En við gáfum allt í þetta og ég er mjög stoltur af strákunum“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira