Enski boltinn

Leeds kaupir Okafor og liðin í ensku úr­vals­deildinni aldrei eytt meiru

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Noah Okafor í baráttu við Ibrahima Konaté í leik AC Milan og Liverpool á undirbúningstímabilinu.
Noah Okafor í baráttu við Ibrahima Konaté í leik AC Milan og Liverpool á undirbúningstímabilinu. epa/LEUNG MAN

Nýliðar Leeds United í ensku úrvalsdeildinni hafa fest kaup á svissneska landsliðsframherjanum Noah Okafor frá AC Milan.

Leeds greiddi Milan átján milljónir punda fyrir Okafor. Liðin tuttugu í ensku úrvalsdeildinni hafa því eytt 2,37 milljörðum punda í félagaskiptaglugganum í sumar sem er met. Gamla metið voru 2,36 milljarðar sem var sett í sumarglugganum 2023.

Okafor skrifaði undir fjögurra ára samning við Leeds. Hann er níundi leikmaðurinn sem liðið kaupir í sumar.

Milan keypti Okafor frá Red Bull Salzburg fyrir tveimur árum. Hann lék 54 leiki fyrir ítalska liðið og skoraði sjö mörk en var lánaður til Napoli seinni hluta síðasta tímabils. Okafor spilaði aðeins fjóra leiki fyrir Napoli sem varð ítalskur meistari. Hinn 25 ára Okafor hefur leikið 24 landsleiki fyrir Sviss og skorað tvö mörk.

Leeds vann 1-0 sigur á Everton á Elland Road í lokaleik 1. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar á mánudaginn. Einn af nýju mönnunum hjá Leeds, Lukas Nmecha, skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu á 84. mínútu.

Næsti leikur Leeds er gegn Arsenal á Emirates á laugardaginn. Leikurinn hefst klukkan 16:30 og verður sýndur beint á Sýn Sport.


Tengdar fréttir

Vítaspyrna tryggði Leeds öll stigin

Nýliðar Leeds United byrjuðu tímabilið á besta mögulegan hátt eftir 1-0 sigur á Everton á Elland Road í kvöld í lokaleik fyrstu umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×