Upp­gjörið: Fram - KR 0-1 | Galdur galdraði fram sigur

Árni Jóhannsson skrifar
Fram vann 3-2 sigur gegn KR þegar liðin mættust í lok maí. Það má búast við fjöri í kvöld þegar liðin mætast að nýju.
Fram vann 3-2 sigur gegn KR þegar liðin mættust í lok maí. Það má búast við fjöri í kvöld þegar liðin mætast að nýju. vísir/Guðmundur

KR vann Fram í Úlfarsárdalnum fyrr í kvöld. Leikurinn endaði með 0-1 sigri og skoraði Galdur Guðmundsson sigurmarkið á 32. mínútu. KR hefur ekki virkað svona þéttir til baka í sumar og lönduðu þeir sigrinum. Fram hefði getað náð í eitthvað en fóru illa með margar góðar stöður í kvöld.

Liðin voru ekki fljót út úr blokkunum í kvöld. Vægast sagt. Heimamenn í Fram voru fljótari til og reyndu eins og þeir gátu til að setja boltann inn fyrir línuna hjá KR, sem átti eftir að halda út allar 90 mínúturnar. Framarar fóru mjög illa með mjög margar stöður og voru oft og tíðum dæmdir rangstæðir og það átti eftir að lita sóknarleik heimamanna allan leikinn.

Fram kom boltanum í netið á 29. mínútu en voru dæmdir rangstæðir. Þremur mínútum síðar skoruðu KR eina mark leiksins. KR fékk aukaspyrnu við D bogann og Matthias Præst þrumaði á markið. Viktor í marki Fram hvorki greip boltann né sló hann í öruggt svæði. Galdur Guðmundsson kom aðvífandi og smellti boltanum í netið á meðan Viktor lá í grasinu.

Eftir þetta datt leikurinn niður og Fram vildi ekki færa sig framar á KR og fyrri hálfleikur fjaraði út. KR yfir en jafnræði með liðunum.

Í upphafi seinni hálfleiks þá voru liðin ekki að flýta sér. KR hafði boltann á köflum og reyndi að teyma heimamenn framar á völlinn en Fram beit ekki á agnið. KR náði ekki alveg að ógna markinu að ráði og þegar um 20 mínútur voru eftir af leiknum þá settu Framarar í meiri gír. Þeir bönkuðu harkalega á dyrnar en að sama skapi þá var ansi oft farið ansi illa með fínar stöður sem sköpuðust. Annað hvort með rangstöðu eða ekki nógu góðum sendingum. 

Það sem var öðruvísi við KR í dag var að þeir voru pottþéttir til baka og hreinsuðu vel til þegar á þurfti að halda. Fyrirliðinn í dag, Júlíus Mar Júlíusson, sagði í viðtali eftir leik að KR-ingar hefðu óvart dottið í þann gír að sparka boltanum upp völlinn til að létta pressuna. Það virkaði í dag og KR sigldi sigrinum heim við mikinn fögnuð aðdáanda Vesturbæinga. KR var að vinna fyrsta útisigurinn í sumar og í fyrsta sinn sem þeir tengja saman tvo sigra í röð.

KR lyfti sér upp í níunda sætið og eru núna tveimur stigum frá sjötta sætinu og örygginu sem því fylgir.

Atvik leiksins

Í leik sem var lokaður að miklu leyti þá er það sigurmarkið sem telur. Galdur fékk að byrja í dag í fyrsta sinn og hann þakkaði traustið. Hann líka fór oft illa með varnarmennina sem mættu honum án þess þó að uppskera úr þeim skemmtilegu tilþrifum.

Stjörnur og skúrkar

Galdur Guðmundsson verður að vera nefndur hér á nafn sem og Júlíus Mar Júlíusson sem leiddi sína menn til sigurs með frábærum varnarleik og stundum tók hann boltann og bar hann upp völlinn  til að bæði létta á pressunni og þjarma að Fram.

Haraldur Einar Ásgrímsson og Þorri Stefán Þorbjörnsson voru í því miður öfundsverða hlutverki að hafa gætur á Galdri og áttu í brasi lengi vel. Annars var Fred flottur í kvöld og með betri ákvarðanatökum framherja liðsins hefði Fram náð í mark.

Dómarinn

Sigurður Hjörtur Þrastarson var í eldlínunni í kvöld og komst hann vel frá verkefninu. Hann féll ekki í gildrurnar sem Galdur lagði fyrir hann og sveiflaði spjaldinu þegar á þurfti að halda.

Umgjörð og stemmning

Frábær umgjörð og stemmning. 1617 sem lögðu leið sína á völlinn og létu vel í sér heyra. Aðstæður frábærar og styrktarsjóður Bryndísar Klöru fær væna summu til sín sem er frábært.

Viðtöl:

Rúnar: Grautfúlt

Rúnar Kristinsson var sjáanlega svekktur með það hvernig leikurinn fór í kvöld og sagði ekki mikið þegar Gulli Jónss. spurði að því hvað menn segðu eftir þennan leik.

„Lítið, þetta er grautfúlt“, sagði Rúnar áður en hann var spurður að því hvernig hann mæti þennan leik.

„Miðað við gang leiksins þá eigum við að fá eitthvað út úr þessum leik. Við pressuðum þá niður allan seinni hálfleikinn og þeir voru að dúlla með hann, það var það eina sem þeir gerðu og fengu ekkert út úr því. Um leið og við fengum boltann þá ógnuðum við og náðum mikið af fyrirgjöfum. Nýttum ekki dauðafærin eins og er búið að vera dálítið um hjá okkur undanfarið. Þorri fékk dauðafæri með skalla og fyrirgjafirnar sem eru að koma á milli markmanns og varnar, það vantar einhvern graðan senter til að henda sér á þetta og koma boltanum í netið. Við eigum urmul af slíkum færum. Sárt að tapa.“

Rúnar hélt áfram að fara yfir leikinn og aðdragandann að marki KR. Rúnar var áþreifanlega ósáttur við þann dóm.

„Við eigum fullt af möguleikum að spila boltanum í gegn í upphafi leiks. Menn gerðu það bara allt of snemma. Menn voru að flýta sér of mikið að senda boltann í gegn í staðinn fyrir að vanda sig aðeins betur og kannski taka eina sendingu í viðbót. Þannig að við náðum ekki að nýta það nægilega vel. Eina markið þeirra kemur úr aukaspyrnu sem Viktor ver og þeir fylgja á eftir og sem var ekki nógu gott hjá okkur. Svo var þetta ódýr aukaspyrna sem þeir fá.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira