Enski boltinn

Willum lagði upp sigur­mark Birmingham

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Willum Þór Willumsson fagnar með Kyogo Furuhashi sem skoraði fyrra mark Birmingham City gegn Sheffield United.
Willum Þór Willumsson fagnar með Kyogo Furuhashi sem skoraði fyrra mark Birmingham City gegn Sheffield United. getty/Clive Mason

Birmingham City er komið áfram í 2. umferð enska deildabikarsins eftir sigur á Sheffield United, 2-1, á St. Andrew's í kvöld.

Jay Stansfield skoraði sigurmark Birmingham þegar þrjár mínútur voru til leiksloka eftir sendingu frá Willum Þór Willumssyni.

Íslenski landsliðsmaðurinn kom ekkert við sögu þegar Birmingham gerði 1-1 jafntefli við Ipswich Town í 1. umferð B-deildarinnar um helgina en nýtti tækifærið í byrjunarliðinu í kvöld vel. Alfons Sampsted var ekki í leikmannahópi Birmingham.

Heimamenn náðu forystunni strax á 5. mínútu þegar Kyogo Furuhashi skoraði. Gustavo Hamer jafnaði fyrir gestina frá Sheffield á 72. mínútu en Stansfield skoraði svo sigurmarkið undir lokin.

Birmingham mætir Port Vale í 2. umferð deildabikarsins.

Willum kom til Birmingham frá Go Ahead Eagles í fyrra. Á síðasta tímabili var hann í lykilhlutverki hjá Birmingham sem vann ensku C-deildina. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×