Fótbolti

Katla kynnt til leiks í Flórens

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Katla er klár.
Katla er klár. Fiorentina

Íslenska landsliðskonan, Katla Tryggvadóttir, hefur verið kynnt til leiks hjá Fiorentina sem leikur í efstu deild ítalska fótboltans. Katla kemur frá Kristianstad í Svíþjóð.

Hin tvítuga Katla gekk til liðs við Kristianstad síðla árs 2023 eftir að hafa gert góða hluti með Þrótti Reykjavík hér á landi. Var hún meðal annars valin efnilegasti leikmaður Bestu deildar kvenna árið 2022 sem og 2023.

Hún fljót að láta að sér kveða í Svíþjóð og bar meðal annars fyrirliðaband Kristianstad er hún var enn aðeins 19 ára gömul.

Katla hefur verið í stóru hlutverki hjá liðinu sem setur um þessar mundir í 5. sæti efstu deildar Svíþjóðar. Hún mun hins vegar ekki geta hjálpað liðinu í Evrópubaráttu sinni þar sem þessi gríðarlega spennandi miðjumaður hefur gengið í raðir Fiorentina á Ítalíu. Liðið endaði í 4. sæti á síðustu leiktíð og ætlar sér enn stærri hluti á komandi leiktíð.

Alexandra Jóhannsdóttir, fyrrverandi samherji Kötlu í Svíþjóð, lék með Fiorentina áður en hún gekk í raðir Kristianstad. Katla verður þriðji Íslendingurinn í efstu deild kvenna á Ítalíu. Markvörðurinn Cecilía Rán Rúnarsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir leika báðar með Inter Milan.

Katla á að baki 9 A-landsleiki. Kom hún við sögu í öllum leikjum Íslands á nýafstöðnu Evrópumóti. Gegn Finnlandi og Sviss kom hún inn af bekknum en var mætt í byrjunarliðið gegn Noregi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×