Upp­gjörið: Lech Poznan - Breiða­blik 7-1 | Af­hroð í Pól­landi

Arnar Skúli Atlason skrifar
Viktor Örn sá rautt í stöðunni 1-1. Eftir það áttu Blikar aldrei möguleika.
Viktor Örn sá rautt í stöðunni 1-1. Eftir það áttu Blikar aldrei möguleika. EPA/Jakub Kaczmarczyk

Breiðablik er svo gott sem úr leik í undankeppni Meistaradeildar Evrópu karla í fótbolta eftir afhroð í Póllandi. Staðan var jöfn þegar Blikar misstu Viktor Örn Margeirsson af velli með rautt spjald. Í kjölfarið skoruðu heimamenn fjögur mörk áður en fyrri hálfleik lauk. Þeir gerðu svo endanlega út um leikinn og einvígið í síðari hálfleik með þremur mörkum til viðbótar. 

Lech byrjaðu betur í kvöld og heldu vel í boltann á meðan voru Blikarnir heldur stressaðir á boltanum og áttu erfitt með að finna samherja. Strax á 3. mínútu skoruðu heima menn í Lech þegar hornspyrna Joel Pereira rataði á kollinn á Antonio Milic sem reis hæst í teignum og sneiddi hann í hornið.

Úr leik kvöldsins.EPA/Jakub Kaczmarczyk

Breiðablik vann á og á 27. mínútu kom besti spilkafli Breiðabliks í leiknum þar sem Ágúst Orri Þorsteinsson fann Valgeir Valgeirsson á hlaupinu. Valgeir komst fram fyrir Antonio Milic sem braut á honum innan vítateigs. Höskuldur Gunnlaugsson tók vítið og skoraði örugglega, setti markmanninn í vitlaust horn og Blikar búnir að jafna.

Fyrirliðinn hvetur sína menn áfram.EPA/Jakub Kaczmarczyk

Tveimur mínútum síðar braut Viktor Örn á Mikael Ishak. Við fyrstu sýn virtist þetta frekar saklaust brot og uppskar miðvörðurinn gult spjald. Þar sem Ishak var að komast í gegn fékk Jesper Vergoote, dómari leiksins, skilaboð í eyrað og fór í skjáinn. Eftir að hafa skoðað atvikið í endursýningu mat dómarinn svo að Viktor Örn hafði verið að ræna Ishak upplögðu marktækifæri og þar að leiðandi breytti hann gulu í rautt, Blikar því manni færri það sem eftir lifði leiks.

Joel Peireira setur aukaspyrnuna inn á teig fær Mateusz Skrzypczak dauðafæri en skallar boltann fram hjá. Aftur fær dómarinn skilaboð um að skoða atvik og núna var um að ræða peysutog í teig Breiðabliks. Arnór Gauti Jónsson hafði þá gripið í treyju Milic og víti niðurstaðan. Ishak fór á punktinn og kom heimamönnum yfir.

Lech hélt áfram að hamra járnið og á 42. mínútu keyrði Michal Gurgul upp vinstri vænginn og setti boltann út í D-boga þar sem Pereira setti boltann fyrir sig og lagði hann í hornið.

Stuðningsmenn Blika gerðu sér ferð á leikinn.EPA/Jakub Kaczmarczyk

Í uppbótatíma héldu heimamenn áfram að keyra á Breiðablik. Filip Jagiello og Antoni Kozubal léku vel sín á milli sem endaði með að Filip reyndi sendingu inn á teig Blika. Sendingin endaði í hendi Valgeirs og önnur vítaspyrna dæmd. Ishak fór aftur á punktinn og var enn öruggari en áður, staðan orðin 4-1.

Þegar klukkan var að slá 51. mínútu, en þó enn fyrri hálfleikur, keyrði Leo Bengtsson upp vinstri vænginn. Tók hann þríhyrningaspil við Antoni Kuzubal sem splundraði vörn Blika, var Bengtsson kominn einn á móti Antoni Ara Einarssyni markverði og kláraði örugglega í nær hornið. Staðan orðin 5-1. Eftir þetta flautaði dómari leiksins til hálfleiks og leikur sem var jafn eftir 30 mínútur var kominn í vaskinn í hálfleik.

Úr leik kvöldsins.EPA/Jakub Kaczmarczyk

Yfirburðir Lech heldu áfram í seinni hálfleiknum. Heimamenn héldu boltanum en Blikar voru að loka betur svæðum en í fyrri hálfleiknum. Eftir frekar rólegan síðari hálfleik dróg til tíðinda á 78. mínútu þegar Filip Jagiello vann boltann úti vinstra megin og rölti með boltann í átt að teig Blika og þrumaði honum niður í nærhornið sem Anton Ari réð ekki við.

Fjörið hjá Lech hélt áfram á 85. mínútu þegar Aron Bjarnason braut á Joel Pereira á fjærstönginni og þriðja vítaspyrnan dæmd á Blika. Ishak sem hafði tekið fyrstu tvær spyrnurnar tók þá þriðju líka og skoraði örugglega og fullkomnaði þrennu sína. Staðan orðin 7-1 og reyndust það lokatölur.

Atvikið

Klárlega þegar Viktor Margeirsson fékk á sig rautt spjald. Í stöðunni 1-1 fyrir brot á Ishak sem var að sleppa í gegn.

Stjörnur og skúrkar

Ishak framherji og fyrirliði Lech Poznan var frábær í kvöld. Hann skoraði þrennu í kvöld allt úr vítum reyndar. Einnig var Joel Pereira hægri bakvörður Lech góður í kvöld sem og allt lið Lech.

Lið Breiðabliks var ekki gott í kvöld og ekki sanngjarnt að taka einhvern einn út. Þeir voru allir frekar lélegir í dag.

Dómarar

Hinn belgíski Jasper Vergoote fór eftir reglum í kvöld og stóð sig vel. Ekki hægt að klína úrslitum leiksins á hann. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira