Fótbolti

Kær­kominn endur­komu­sigur Grind­víkinga

Siggeir Ævarsson skrifar
Adam Árni skoraði tvö marka Grindavíkur í kvöld
Adam Árni skoraði tvö marka Grindavíkur í kvöld Facebook Knattspyrnudeild Grindavíkur UMFG - Petra Rós

Grindvíkingar sóttu þrjú mikilvæg stig í Grafarvoginn í kvöld þegar liðið sótti Fjölni heim í Lengjudeild karla. Heimamenn komust í 2-0 en Grindvíkingar svöruðu með þremur mörkum í seinni hálfleikinn.

Fyrir leikinn hafði Grindavík tapað fjórum leikjum í röð og fengið á sig 19 mörk í þeim leikjum. Í upphafi leiks leit út fyrir að það sami yrði upp á teningnum áfram en Egill Otti Vilhjálmsson kom Fjölni yfir á 16. mínútu og Sölvi Sigmarsson tvöfaldaði forskotið á 32. mínútu.

Vörn Grindvíkinga var ekki sannfærandi í fyrri hálfleiknum en gestunum tókst að snúa blaðinu algjörlega við í seinni hálfleik.

Ármann Ingi Finnbogason minnkaði muninn með marki beint úr aukaspyrnu á 69. mínútu og fyrirliði Grindavíkur, Adam Árni Róbertsson skoraði svo tvö mörk með tveggja mínútna millibili á 75. mínútu og 77.

Heppnin hefur ekki beinlínis verið með Grindvíkingum í undanförnum leikjum en það örlaði á henni núna. Á 82. mínútu fengu Fjölnismenn víti en Matias Niemela varði spyrnuna og Grindvíkingar fögnuðu að lokum sínum fyrsta sigri í deildinni síðan 9. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×