Erlent

Bindur vonir við „einn inn, einn út“ á­ætlun í inn­flytj­enda­málum

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Macron er staddur í þriggja daga langri opinberri heimsókn í Lundúnum.
Macron er staddur í þriggja daga langri opinberri heimsókn í Lundúnum. EPA

Keir Starmer forsætisráðherra Bretlands bindur vonir við að Emmanuel Macron Frakklandsforseti samþykki tillögu hans að aðgerðaráætlun milli ríkjanna í innflytjendamálum. Áætlunin snýr einkum að innflytjendum sem sigla milli landanna á litlum bátum. 

Macron og Starmer sátu fund í dag á síðasta degi opinberrar heimsóknar þess fyrrnefnda til Bretlands, þar sem innflytjendamál og öryggis- og varnarmál voru efst á baugi. Ólöglegar fólksflutningar hælisleitenda frá Frakklandi til Bretlands um Ermarsundið hafa færst í aukana undanfarin ár og tugir hafa drukknað í slíkum siglingum.

Í frétt Reuters um heimsóknina segir að dvínandi vinsældir Starmer frá því að hann sigraði þingkosningar í Bretlandi í fyrra megi meðal annars rekja til aðgerðaleysis í innflytjendamálum. 

Á fundinum lagði Starmer fram tillögu að svokallaðri „einn inn, einn út“ áætlun í innflytjendamálum. Í henni felst að hver sem siglir ólöglega frá Frakklandi til Bretlands í leit að hæli verði brottvísað aftur til Frakklands. Á móti kemur yrðu jafnmargir hælisleitendur sem komu löglega til Frakklands sendir þaðan til Bretlands, þar sem tekið yrði á móti þeim. 

Ekki liggur fyrir hvort tillaga Starmer verði samþykkt en Macron kallaði eftir frekari aðgerðum Breta í tengslum við að gera ólöglegum innflytjendum erfiðara fyrir að fá vinnu, og þar af leiðandi geta búið í landinu. 

Sér til varnar sagði Starmer bresk stjórnvöld hafa í auknum mæli handtekið ólöglega innflytjendur sem hafi reynst án atvinnuréttinda að undanförnu. Það hafi virkað sem fælingarmáttur fyrir aðra á leið til Bretlands í leit að atvinnu án réttinda. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×