Frá þessu er greint í norskum fjölmiðlum núna í morgun en Bergsvand er reynslumikill miðvörður sem byrjaði alla leiki norska liðsins í Þjóðadeildinni á þessu ári að undanskildum lokaleiknum gegn Sviss þar sem að hún gat ekki spilað vegna meiðslanna sem hún hafði orðið fyrir í leik nokkrum dögum áður gegn Íslandi.
Bergsvand fór meidd af velli gegn Íslandi undir lok síðasta mánaðar í Þjóðadeildinni en hvort að sömu meiðsli og hún hlaut þar séu að halda henni frá þátttöku á EM skal látið ósagt. Þess er hið minnsta ekki getið í yfirlýsingu norska knattspyrnusambandsins.
„Þetta er slæmt fyrir norska liðið. Bergsvand hefur verið einn stöðugasti leikmaður norska landsliðsins,“ segir Kristoffer Løkberg, sérfræðingur NRK. „Það er áfall fyrir Noreg að hún verði ekki með.“
Bergsvand hefur leikið stórt hlutverk í varnarlínu Noregs upp á síðkastið og myndað sterkt miðvarðapar með Mathilde Harviken, leikmanni ítalska félagsins Juventus. Inn í norska hópin ní stað Bergsvand kemur hin 24 ára gamla Marthine Østenstad, leikmaður Brann.
Noregur er með Íslandi í A-riðli komandi Evrópumóts, liðin mætast í lokaumferð riðlakeppninnar þann 10.júlí næstkomandi en þar mun norska liðið ekki geta reitt sig á krafta Bergsvand í hjarta varnarinnar.
Ekki er ýkja langt síðan að Bergsvand, sem er 31 árs gömul, samdi við þýska stórliðið Wolfsburg en hún hafði frá árinu 2023 spilað með enska félaginu Brighton og þar áður í heimalandinu með liðum á borð við Brann og Stabæk.