Enski boltinn

Leita til Liverpool að nýjum kollega Hákonar

Sindri Sverrisson skrifar
Caoimhin Kelleher og Conor Bradley með Englandsmeistarabikarinn.
Caoimhin Kelleher og Conor Bradley með Englandsmeistarabikarinn. Getty/Liverpool

Allt útlit er fyrir að markvörðurinn Mark Flekken yfirgefi Brentford bráðlega og leiki undir stjórn Erik ten Hag hjá Leverkusen í Þýskalandi á næstu leiktíð.

Í stað Flekkens virðist Brentford, sem einnig er með íslenska landsliðsmarkvörðinn Hákon Rafn Valdimarsson innan sinna raða, ætla að fá Caoimhin Kelleher frá Liverpool.

Lítil þörf er fyrir Kelleher hjá Liverpool þar sem Georgíumaðurinn Giorgi Mamardashvili kemur nú loks frá Valencia á Spáni og fyrir er að sjálfsögðu aðalmarkvörðurinn Alisson.

Leverkusen og Brentford eru á lokastigum viðræðna um kaup þýska félagsins á þessum 31 árs gamla Hollendingi sem þegar hefur náð samkomulagi við Leverkusen um sín kaup og kjör. 

Flekken lék um árabil í Þýskalandi áður en hann kom til Brentford fyrir tveimur árum.

Sky Sports segir að Brentford hafi nú haft samband við Liverpool í von um að tryggja sér Kelleher sem er með samning við Liverpool til eins árs í viðbót.

Endi Kelleher hjá Brentford hittir hann fyrir landa sinn og annan lærisvein Heimis Hallgrímssonar úr írska landsliðinu því í vörn liðsins er Nathan Collins.

Heimir hefur hvatt Kelleher til að koma sér í lið þar sem hann spilar reglulega en Írinn náði þó að leika tíu deildarleiki fyrir meistara Liverpool í vetur og aðra tíu leiki í öðrum keppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×