Erlent

Úkraínskur fyrr­verandi em­bættis­maður skotinn til bana í Madrid

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumenn á vettvangi morðsins á Andriy Portnov í Madrid í morgun.
Lögreglumenn á vettvangi morðsins á Andriy Portnov í Madrid í morgun. AP/Paul White

Fyrrverandi háttsettur embættismaður í ríkisstjórn Úkraínu var skotinn til bana fyrir utan skóla barnanna sinna í Madrid á Spáni í morgun. Óþekktir tilræðismennirnir flúðu vettvang og eru ófundnir.

Andriy Portnov var einn af helstu ráðgjöfum Viktors Janúkovitsj í forsetatíð hans sem endaði í skugga mannskæðra mótmæla árið 2014. Hann var skotinn til bana fyrir utan bandarískan skóla í Pozuelo Alarcón, úthverfi spænsku höfuðborgarinnar, þegar hann var nýbúinn að skutla börnunum sínum þangað klukkan 9:15 að staðartíma.

Samkvæmt heimildum spænska blaðsins El País réðust tveir eða þrír árásarmenn skutu hann nokkrum skotum, þar á meðal í hnakkann. Enginn hefur hefur enn verið handtekinn vegna morðsins.

Beittur refsiaðgerðum og rannsakaður fyrir landráð og spillingu

Portnov var þingmaður á úkraínska þinginu á sínum tíma og var einn nánasti ráðgjafi Janúkovitsj áður en hann hrökklaðist frá völdum í Euromaidan-mótmælunum svonefndu. Janúkovitsja var hliðhollur stjórnvöldum í Kreml. Mótmælin hófust þegar hann ákvað skyndilega að hætta við að skrifa undir samstarfssamning við Evrópusambandið og snúa sér frekar að Rússlandi.

Eftir fall Janúkovitsj-stjórnarinnar yfirgaf Portnov Úkraínu og bjó meðal annars um tíma í Rússlandi. Bandarísk stjórnvöld lögðu refsiaðgerðir á hann árið 2021 fyrir spillingu sem tengdist úkraínska réttarkerfinu.

Úkraínsk yfirvöld hafa nokkrum sinnum reynt að sækja Portnov til saka fyrir ýmsa glæpi, þar á meðal landráð og spillingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×