Fótbolti

Ísak kórónaði frá­bært tíma­bil með marki í lokaumferðinni

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Ísak Bergmann og Valgeir Lunddal eru leikmenn Fortuna Dusseldorf. Sá fyrrnefndi skoraði í dag og batt þar með enda á stórkostlegt tímabil. 
Ísak Bergmann og Valgeir Lunddal eru leikmenn Fortuna Dusseldorf. Sá fyrrnefndi skoraði í dag og batt þar með enda á stórkostlegt tímabil.  Lars Baron/Getty Images

Ísak Bergmann Jóhannesson skoraði í 4-2 tapi Fortuna Dusseldorf gegn Magdeburg í lokaumferð næstefstu deildar þýska fótboltans. Ísak var einn besti leikmaður Fortuna á tímabilinu, sem endaði í sjötta sæti deildarinnar.

Fortuna fór stórkostlega af stað á tímabilinu og hélt toppsætinu lengi vel, en deildin var afar jöfn og Fortuna lét deigan síga. Liðið dróst aftur úr toppbaráttunni en hélt lítilli von um umspil á lífi með sigri gegn Schalke í síðustu umferð.

Fortuna hefði hins vegar þurft á sigri að halda í dag, ásamt því að treysta á önnur úrslit. Hvorugt gekk eftir. Liðið var 3-1 undir þegar Ísak minnkaði muninn á 81. mínútu, en Magdeburg bætti við marki í uppbótartíma og fór með 4-2 sigur.

Ísak var einn besti leikmaður Fortuna á tímabilinu, byrjaði 32 af 34 leikjum, skoraði 11 mörk og gaf 3 stoðsendingar. Hann hefur verið sterklega orðaður við skipti til stærra liðs í sumar.

Valgeir Lunddal var í minna hlutverki en byrjaði 16 leiki, kom alls við sögu í 23, án markframlags. Hann kom inn af varamannabekknum í dag en var síðan tekinn af velli vegna meiðsla á lokamínútunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×