Enski boltinn

Fótboltaparið eignaðist son og skírði hann Jagger

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kristie Mewis og Sam Kerr með nýfæddan son sinn.
Kristie Mewis og Sam Kerr með nýfæddan son sinn. instagram-síða sams kerr

Fótboltakonurnar Sam Kerr og Kristie Mewis hafa eignast sitt fyrsta barn, dreng sem fékk nafnið Jagger.

Kerr og Mewis birtu mynd af sér á Instagram með drengnum. „Litli maðurinn okkar er hér, Jagger Mewis-Kerr,“ skrifaði Kerr við myndina.

Í nóvember á síðasta ári greindu Kerr og Mewis frá því að þær ættu von á sínu fyrsta barni. Í kjölfarið fengu þær yfir sig holskeflu hómófóbískra ummæla. Þjálfari Kerrs hjá Chelsea, Sonia Bompastor, fordæmdi ummælin.

„Ég vil styðja Sam. Ég styð við bakið á henni. Það er óásættanlegt að hafa svona athugasemdir, sérstaklega 2024. Mér er fyrirmunað að skilja hvernig fólk getur brugðist svona við,“ sagði Bompastor á blaðamannafundi.

„Ég vil einblína á það jákvæða og styðja þær Sam og Kristie. Við erum mjög stolt af þeim og ánægð fyrir þeirra hönd. Sem mamma get ég ekki hugsað neitt annað. Sem kona er ekkert betra en að fá fréttirnar að þú eigir tækifæri á að verða mamma.“

Kerr hefur ekkert spilað með Chelsea í vetur vegna meiðsla. Mewis spilaði einn leik með West Ham United áður en hún dró sig í hlé vegna óléttunnar.

Hin ástralska Kerr hefur leikið með Chelsea síðan 2020. Hún hefur fimm sinnum orðið Englandsmeistari með liðinu. Kerr er markahæsti leikmaður í sögu ástralska landsliðsins með 69 mörk í 128 leikjum.

Mewis, sem er samherji Dagnýjar Brynjarsdóttur hjá West Ham, gekk í raðir Hamranna fyrir tveimur árum. Hún hefur leikið 53 leiki fyrir bandaríska landsliðið og skorað sjö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×