Ríkisstjórnin kynnti strax í stefnuyfirlýsingu sinni í desember að hún hyggðist setja á það sem hún kallaði réttlát auðlindagjöld sem renni að hluta til nærsamfélagsins. Í framhaldinu var tilkynnt að veiðigjöldin yrðu tvöfölduð.
Í könnun sem Maskína gerði í apríl kom fram að ríflega níu af hverjum tíu telji að útgerðir séu færar um að greiða hærri veiðigjöld.
Horfið frá tvöföldun gjalda en þó umtalsverð hækkun
Frumvarp atvinnuvegaráðherra um leiðrétt veiðigjöld var afgreitt úr ríkisstjórn í dag. Það fer til umfjöllunar í þingflokkum meirihlutans á morgun og verður birt í framhaldinu.
„Við viljum að gjaldið sé miðað við markaðsverð á fimm algengum nytjastofnum. Í stað þess að verð á fisktegundunum sé ákveðið af útgerðinni hér heima í innri viðskiptum,“ segir Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra.
Veiðigjöldin verði þó ekki tvöfölduð eins og boðað var í upphafi.
„Þetta er umtalsverð hækkun á gjöldunum en hún er ekki tvöfölduð. Það er vegna þess að við erum að teygja okkur mjög langt með hækkun frítekjumarks,“ segir Hanna sem bætir við að meira komi í ljós eftir umfjöllun þingflokkanna.
SFS mótmælir hækkunum með auglýsingaherferð
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS)hafa mótmælt fyrirhugðum hækkunum harðlega. Framundan sé þungur róður verðu þau að veruleika.
Þá reka samtökin auglýsingaherferð í ljósvakamiðlum þar sem mikilvægi greinarinnar er dregið fram í sveitarfélögum eins og Eskifirði, Grundarfirði, Dalvík og Vestmannaeyjum. Fram kemur í lok hverrar auglýsingar að veiðigjald sé skattur á samfélög en samtökin sig fyrir þeirri fullyrðingu.
Auglýsing SFS með aðalleikara norsku þáttanna Exit hefur einnig vakið mikla athygli. Þar er líka vísað til neikvæðra áhrifa sem samtökin telja að boðuð hækkun veiðigjalda muni hafa á greinina.
Atvinnuvegaráðherra finnst erfitt að skilja málflutninginn sem kemur fram í auglýsingunni.
„Ég skil hana ekki nákvæmlega. Það er ekkert í þessari leiðréttingu á veiðigjöldunum sem kemur í veg fyrir áframhaldandi verðmætasköpun í sjávarútvegi,“ segir Hanna Katrín.
Hún býst átökum og málþófi um veiðigjöldin hjá stjórnarandstöðu á Alþingi en þau muni verða að veruleika.
„Ég er algjörlega sannfærð um að þetta mál nái að fara í gegn,“ segir Hanna Katrín.