Norskir fjölmiðlar greina frá þessu í morgun, en forsætisráðherrann Jonas Gahr Støre mun í dag skipa nýja ráðherra eftir að Miðflokkurinn sleit stjórnarsamstarfinu á dögunum. Átta ráðherrar nýir verða því kynntir til leiks.
Stoltenberg mun taka við embætti fjármálaráðherra af Trygve Slagsvold Vedum, formanni Miðflokksins.
Stoltenberg var forsætisráðherra Noregs á árunum 2005 til 2013 og framkvæmdastjóri NATO á árunum 2014 til 2024. Hann var formaður Verkamannaflokksins á árunum 2002 til 2014.
Verkamannaflokkurinn og Miðflokkurinn mynduðu stjórn árið 2021 en deildu hart um innleiðingu á þremur tilskipunum Evrópusambandsins sem eru hluti af svonefndum fjórða orkupakka þess. Verkamannaflokkurinn vildi innleiða þær strax en Miðflokkurinn talaði fyrir því að nánari samvinnu við Evrópu í orkumálum yrði hafnað.
Miðflokkurinn ákvað á endanum að slíta stjórnarsamstarfinu og mun Verkamannaflokkurinn því að óbreyttu stýra minnihlutastjórn fram að þingkosningum sem munu fara fram í Noregi þann 8. september næstkomandi.