Hreyfingin hafi þrátt fyrir allt komið mörgum góðum málum í gegn en verið hart dæmd. Í dag er hún sérlegur sendifulltrúi Hringborðs norðuslóða og útilokar ekki að gefa minningar sínar út á bók.

„Ég ætla ekki að ljúga neinu um það að sunnudaginn eftir kosningar upplifði ég verulega djúpa sorg. Ég ætla líka að segja að mér fannst við hart dæmd," sagði Katrín. Þau 25 ár sem Vinstrihreyfingin grænt framboð var á þingi hafi hreyfingin haft ótrúlega mikil áhrif á landsmálin.
„Bæði í stjórnarandstöðu fyrir hrun í ríkisstjórninni sem sinnti endurreisnarstarfi eftir hrun. Sem flokkur í stjórnarandstöðu sem alltaf var á vaktinni fyrir ýmis mannréttindamál, náttúruvernd og umhverfisvernd og auðvitað fyrir gildi félagshyggjunnar. Og svo auðvitað á síðustu sjö árum í ríkisstjórn þar sem ég tel að við höfum náð miklum árangri þótt að auðvitað hafi ekki allt náðst í gegn," sagði Katrín í Samtalinu.
Það þarf kannski líka að huga að heilbrigði hreyfingarinnar og kannski er það að koma í bakið á hreyfingunni núna að hún sýndi of mikið langlundargeð?
„Alveg vafalaust og vafalaust má benda á mig í þeim efnum. Það má örugglega benda á einhverja fleiri ef fólk vill. Stóra málið held ég og verkefnið sem formaður hreyfingarinar stendur fyrir og hennar fólk í forystunni er hvernig ætla þau núna að halda áfram," sagði forsætisráðherrann fyrrverandi. Flokkur væri bara tæki utanum einhver mál og þessi mál væru ekkert að fara.

Katrín fékk rétt rúmlega 25 prósent atkvæða í forsetakosningunum í júni og hlaut næst mesta fylgið á eftir Höllu Tómasdóttur sem var kjörin með rétt rúmlega 34 prósentum atkvæða.
„Í fyrsta lagi fannst mér gaman í þessari forsetakosningabaráttu. Ég kynntist nýju fólki, fékk einhvern veginn aðra sýn á samfélagið. Þegar maður er á ferð um landið til dæmis sem stjórnmálamaður færðu ákveðna sýn og þu hittir ákveðið fólk. Svo ferðu sem forsetaframbjóðandi og hittir annað fólk sem hefur aðra hluti að segja þér. Þannig að það var í fyrsta lagi mjög gefandi. Ég var auðvitað grautfúl að tapa þessum kosningum. Ég fór í þetta til að vinna, að sjálfsögðu," sagði Katrín Jakobsdóttir.
Í Samtalinu ræddi hún einnig meðal annars hvað hún væri með á prjónunum þessa dagana. Það væru nokkur bretti með skjölum frá henni á Þjóðskjalasafninu sem hún væri að grúska í og útilokaði ekki að gefa út endurminningar sínar.
Hér má sjá Samtalið í heild sinni: