„Ronaldo var ótrúlega sjálfselskur. Ef við unnum 6-0, en hann skoraði ekki í leiknum, þá var hann ekki ánægður. En ef við töpuðum, og Ronaldo skoraði tvö mörk, þá var hann glaður,“ sagði Van der Vaart í hlaðvarpsþætti Talksport.
Þeir Van der Vaart og Ronaldo náðu einni leiktíð saman hjá Real Madrid, 2009-10, áður en Hollendingurinn gekk í raðir Tottenham og sallaði inn mörkum í ensku úrvalsdeildinni.
Portúgalski miðillinn MaisFutebol sagði frá ummælum Van der Vaart á Instagram-síðu sinni og einn af þeim sem settu inn athugasemd við þá færslu var opinber reikningur Ronaldos.
„Hver er þessi náungi?“ skrifaði Ronaldo, eða einhver á hans vegum.

Það var þó ekki svo að Van der Vaart hefði bara slæma hluti að segja um Ronaldo, í fyrrnefndum hlaðvarpsþætti.
„Var hann bara að spila fyrir sjálfan sig? Nei, en hann þráði alltaf að skora. Það er hægt að segja það sama um Ruud van Nistelrooy.
Við í liðinu töluðum oft við Ronaldo í Madrid og það var áhugavert því hann sagðist hreinlega hafa þörf fyrir að skora mörkin sín. Hann var algjör vél,“ sagði Van der Vaart.
Hollendingurinn lék alls 73 leiki fyrir Real og skoraði í þeim 12 mörk og átti 13 stoðsendingar. Hann lauk ferlinum árið 2018 í Danmörku, sem leikmaður Esbjerg.
Ronaldo, sem skoraði 450 mörk og átti 131 stoðsendingu í 438 leikjum fyrir Real, lék í níu ár með spænska liðinu áður en hann fór til Juventus og sneri svo aftur til Manchester United. Hann fór svo til Al Nassr í Sádi-Arabíu árið 2023.