Anashkin tók við stjórn svo kallaðs „suður hernaðarhéraðs Rússlands“ fyrr á þessu ári. Það er eitt fimm hernaðarhéraða Rússlands og spannar þrettán sambandsríki milli Svartahafs og Kaspíahafs.
Nánar tiltekið er Anashkin sagður hafa verið rekinn vegna slæms gengis rússneskra hermanna nærri bænum Siversk, þar sem Rússum hefur orðið lítið ágengt á undanförnum mánuðum. Í frétt Reuters er haft eftir rússneskum herbloggurum að þeir hafi lengi kvartað yfir því að hermenn hafi verið sendir gegn vörnum Úkraínumanna við Siversk án stuðnings og skipulagningar.
Rússar hafa sótt nokkuð fram í suðausturhluta Úkraínu á undanförnum mánuðum.
Rybar, ein vinsælasta herbloggarasíða Rússlands, kvartaði yfir því hve langan tíma hefði tekið að reka Anashkin. Ljóst hefði verið fyrir tveimur mánuðum að það væri nauðsynlegt.
Rússneski útlagamiðilinn Meduza hefur eftir bloggurum, sem hafa oft góða heimildarmenn í rússneska hernum, að Anashkin hafi verið sakaður um að lýsa því yfir að hann hefði hernumið bæi sem hann hefði ekki tekið í rauninni.
Þá hefði hann misst gífurlegan fjölda hermanna við að ná þeim bæjum sem hann hefði raunverulega náð.
Varnarmálaráðuneytið hefur ekki staðfest brottrekstur Anashkin en einn rússneskur miðill, sem þykir hliðhollur Kreml, hefur eftir heimildarmanni sínum í ráðuneytinu að lengi hafi staðið til að skipta um herforingja á svæðinu.