Bjarni Benediktsson forsætisráðherra fór yfir hvað gerðist á milli hans og Jóns Gunnarssonar, í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær eftir að Heimildin sagði frá leynilegri upptöku huldumanns þar sem Gunnar Bergmann sonur Jóns fullyrti að faðir hans hafi samþykkt beiðni Bjarna Benediktssonar um að þiggja sæti á lista gegn því að Jón fengi stöðu í matvælaráðuneytinu. Haft er eftir Gunnari í upptökunum að Jón ætlaði sér að afgreiða leyfi til hvalveiða í matvælaráðuneytinu en ráðherrar Vinstri grænna höfðu staðið í vegi þess.
Ræddi um málin tvö á sama tíma
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra lýsti því í fréttum í gær hvernig málið kom upp á fundi hans og Jóns í kjölfar þess að þingmaðurinn hafði lýst yfir að hann ætlaði ekki að taka sæti á lista Sjálfstæðisflokksins eftir að hafa tapað fyrir varaformanninum.
„Ég er á sama tíma að ræða þetta tvennt við hann,“ sagði Bjarni.
Aðspurður um hvort það væri ekki óheppilegt svaraði hann:
„Hann þurfti að segja af sér þingmennskunni til þess að helga störf sín þessu hlutverki samhliða því að hann verður í kosningabaráttu. Mér finnst menn vera að rugla saman óskyldum hlutum. Hann er frekar að gera mér greiða heldur en ég honum.“
Jón Ólafsson prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands telur að þetta samræmist ekki siðareglum ráðherra.
„Í þessu tilfelli er verið að tengja þessi tvö mál á sama fundi. Það er merki um ákveðið formleysi í stjórnsýslu. Ef málið er einnig skoðað út frá siðferðislegu sjónarhorni og út frá sjónarhorni sérstakra siðareglna ráðherra þá er hægt að benda á að það þurfi að passa að blanda svona málum ekki saman á sama fundi eins og þarna er gert. Þetta vekur spurningar um greinarmun á flokkspólitísku starfi og verkefnum í stjórnsýslunni. Í siðareglum ráðherra kemur fram að ráðherra þurfi að gera greinarmun á þessu tvennu. Samkvæmt þeim ætti fólk að horfast í augu við hvaða álitamál geta komið upp og leita allra leiða til að forðast þau. Það að tengja saman pólitík og kosningabaráttu og verkefni í ráðuneytinu með þeim hætti sem hann lýsir er ekki í samræmi við þessar ágætu siðareglur,“ segir Jón.
Ákvæðið í Siðareglum ráðherra sem Jón vísar til er eftirfarandi:
Ráðherra gerir skýran greinarmun á flokkspólitísku starfi, svo sem í tengslum við kosningar, og verkefnum ráðuneytis síns hverju sinni. Hann felur starfsmönnum ráðuneyta, öðrum en aðstoðarmanni, ekki verkefni sem tengjast hinu fyrrnefnda.
Jón telur tilefni til að málið verði kannað
„ Þetta er mjög gott tilefni til að láta skoða málið hjá Siðfræðistofnun Háskóla Íslands og í forsætisráðuneytinu þar sem sérstök deild er til staðar sem getur fjallað um þetta,“ segir Jón.
Tók Jón úr hvalaverkefni sama dag og leyniupptökurnar fóru í dreifingu
Bjarni upplýsti sagði í fréttum í gær að hann hefði ákveðið áður en leyniupptökurnar voru gerðar opinberar að útiloka Jón Gunnarsson frá vinnslu hvalveiðiumsókna í matvælaráðuneytinu. Heimildin upplýsir í dag að ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins hafi fengið beiðni um það sama dag og leyniupptökurnar fóru í dreifingu eða fimmtudaginn 7. nóvember. Umfjöllun um málið hófst 11. nóvember í Heimildinni.