Í gær var greint frá óvissu um hvort leikur Íslands og Tyrklands gæti farið fram í kvöld eins og til stóð vegna frosts í jörðu. Laugardalsvöllur er ekki upphitaður og er því afar viðkvæmur fyrir næturfrosti eins og var í nótt.
Lið Íslands og Tyrklands æfðu inni í knatthúsi Stjörnunnar, Miðgarði í gær, og síðdegis funduðu eftirlitsmaður UEFA, stjórnendur KSÍ og starfsmenn Laugardalsvallar um hvort leikurinn gæti farið fram í kvöld. Engin ákvörðun var þó tekin íum frestun.
Samkvæmt heimildum íþróttadeildar munu dómarar leiksins skoða Laugardalsvöll klukkan 14:00 og í kjölfarið ákveða hvort hann sé leikhæfur. Ef ekki verður leiknum frestað til morguns. Svigrúm er til þess en landsleikjaglugginn verður opinn fram á þriðjudagskvöld.
Dúkur hefur verið yfir Laugardalsvelli síðustu daga til að halda sem mestum hita á grasinu. Dúkurinn var tekinn af skömmu fyrir leikinn gegn Wales á föstudaginn en settur aftur á eftir leik.
Ekki hefur verið æft á Laugardalsvelli undanfarna daga en fyrir leikinn gegn Wales æfði íslenska liðið á blönduðu grasi FH-inga í Kaplakrika. Walesverjar æfðu heima fyrir áður en þeir flugu til Íslands daginn fyrir leik.