
Íbúum á Íslandi hefur fjölgað um rétt tæplega 70.600 manns frá árinu 2012, sem samsvarar öllum íbúum Kópavogs og Hafnarfjarðar samanlagt. Þar af hefur erlendum ríkisborgurum fjölgað um 22 þúsund á síðustu fjórum árum, sem samsvarar öllum íbúum Reykjanesbæjar.
Þessa miklu fólksfjölgun undanfarin tólf ár má nánast alla rekja til mikillar þenslu og eftirspurnar íslenskra fyrirtækja eftir vinnuafli sem á greiðan aðgang að Íslandi frá öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins.
Þessi gífurlega mikla fólksfjölgun reynir á alla innviði landsins, ekki hvað síst heilbrigðisþjónustuna. Margrét Ólafía Tómasdóttir formaður Félags íslenskra heimilislækna segir eðlilegt að hver heimilislæknir sinni um 1.200 manns. Miðað við það hefði þurft að fjölga heimilislæknum um fimmtíu og níu á síðustu tólf árum. Þeir eru um 200 í dag.
Það er ekki til að bæta skort á heimilislæknum að mjög fjölmenn kynslóð heimilislækna hefur látið af störfum á undanförnum árum og á eftir að láta af störfum á næstu misserum og árum sökum aldurs.

„Já, það er í rauninni mjög stór hluti vandans. Hlutir sem við erum í raun búin að vera að benda á undanfarin áratug að minnsta kosti. Að þetta væri svolítið yfirvofandi, að við yrðum allt of fá í stéttinni."
Er þetta bara að raungerast þessi misserin?
„Það er það. Miðað við okkar útreikninga ættum við að vera um það bil núna í dýpstu lægðinni með tilliti til mönnunarskorts,“ segir formaður Félags íslenskra heimilislækna.

Byrjað var að bregðast við þessu fyrir nokkrum árum með því að höfða til fleiri að hefja nám í heimilislækningum.
„Í rauninni höfum við hægt og bítandi verið að stækka sérnámið. Við höfum verið með sérnám í heimilislækningum núna í 26 ár. Í upphafi voru tveir nemendur og nú erum við komin yfir hundrað. Þannig að í raun hefur sérnámið stækkað mjög mikið síðustu fimm til sex árin,“ segir Margrét Ólafía.
Á næstu fimm til sex árum ætti að takast að vinna upp þörfina og eftir það fjölga hægt og bítandi í stéttinni. Hins vegar væri erfitt að byggja upp heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað fólks í heilbrigðiskerfinu í þessu ástandi á sama tíma og íbúum landsins fjölgaði svona hratt.
„Uppbygging á heilsugæslustöðvum hefur verið allt of hæg. Þannig að þegar ný hverfi koma inn, til dæmis á höfuðborgarsvæðið, er ekki gert ráð fyrir að þá þurfi nýja heilsugæslustöð. Hinn anginn er auðvitað líka að við erum allt of fá og erum ekki að ná að fullmanna þær heilsugæslustöðvar sem eru til staðar. En það hefur samt sýnt sig, að það að útvíkka rekstrarformið hefur hjálpað með tilliti til áhuga á faginu og mönnunar,“ segir Margrét Ólafía Tómasdóttir.