Erlent

Festust á hvolfi í hálf­tíma

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Tívolítækið heitir AtmosFEAR og sveiflast fram og til baka meðan farþegar snúast í hringi. Sams konar tæki er að finna í Húsdýragarðinum. 
Tívolítækið heitir AtmosFEAR og sveiflast fram og til baka meðan farþegar snúast í hringi. Sams konar tæki er að finna í Húsdýragarðinum.  AP

Björgunarsveitir í Oregon-ríki í Bandaríkjunum björguðu 28 manns úr tívolítæki í skemmtigarði í gær eftir að tækið fraus á miðri leið og farþegar festust á hvolfi. 

Í frétt AP um málið segir að farþegarnir hafi verið fastir á hvolfi í tívolítæki í garðinum Oaks Park í borginni Portland í um það bil hálftíma þar til þeim var bjargað úr prísundinni.

Björgunar- og slökkviliðsdeild Portland segir í færslu á X að slökkviliðsmenn hefðu unnið með verkfræðingum að því að lækka farþegarými tækisins handvirkt. Farþegarnir hafi verið leystir úr tækinu eftir um hálftíma á hvolfi. 

Ekki er vitað til þess að neinn hafi meiðst, en einum farþega, sem þegar var greindur með sjúkdóm var ekið á sjúkrahús til skoðunar. 

Skömmu eftir að tækið festist var skemmtigarðurinn lokaður og gestum gert að rýma. Í tilkynningu frá garðinum segir að tívolítækið, sem opnaði árið 2021, verði lokað þar til búið sé að ganga úr skugga um hvað olli biluninni. 

Myndskeið af atvikinu í eigu AP má nálgast hér að neðan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×