Fótbolti

Segir Bayern hafa náð sam­komu­lagi við lykil­mann Le­verku­sen

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jonathan Tah í leik með Þýskalandi.
Jonathan Tah í leik með Þýskalandi. EPA-EFE/CHRISTOPHER NEUNDORF

Það virðist næsta víst að miðvörðurinn Jonathan Tah færi sig um set frá Þýskalandsmeisturum Bayer Leverkusen til Bayern München.

Það mátti búast því að leikmenn Leverkusen yrðu eftirsóttir í sumar en liðið fór taplaust í gegnum þýsku úrvalsdeildina, vann bikarkeppnina og alla leið í úrslit Evrópudeildarinnar.

Nú hefur þýski blaðamaðurinn Florian Plettenberg greint frá því að hinn 28 ára gamli Tah sé á leið til þýska stórliðsins Bayern München. Segir hann að miðvörðurinn öflugi hafi samið við Bayern til fimm ára eða til sumarsins 2029.

Samningur Tah við Leverkusen rennur út á næsta ári og því er ljóst að hann fer ekki frítt til Bayern. Ekki hefur verið greint frá því hversu mikið hann mun kosta Bayern.

Eflaust verða skiptin ekki staðfest fyrr en eftir að EM lýkur en Tah er hluti af leikmannahóp Þýskalands.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×