Hildur stóð vaktina á miðri miðju Íslands þegar liðið sótti sigur sem gæti svo gott sem hafa tryggt liðinu sæti á EM sem fram fer í Sviss á næsta ári. Hin 28 ára gamla Hildur var að spila sinn 16 A-landsleik en lék sem hún hefði spilað talsvert fleiri.
Ásamt því að skora það sem reyndist sigurmark leiksins þá stóð hún fyrir sínu á miðsvæðinu og sá til þess að Austurríki ógnaði lítið sem ekkert fyrir utan mark þeirra.
Hildur Antonsdóttir með frábæran skalla! 🇮🇸
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) June 4, 2024
Íslenska liðið er búið að hóta þessu marki allan seinni hálfleikinn og loksins datt það ⚽ pic.twitter.com/YAB7V54fHU
Í viðtali við Fótbolti.net eftir leik staðfesti Hildur að hún yrði ekki lengur hjá hollenska félaginu Fortuna Sittard. Hún gekk í raðir félagsins sumarið 2022 eftir að hafa spilað með uppeldisfélagi sínu Val og Breiðabliki hér á landi.
Hún er á leið í frí á Mallorca áður en hún tekur ákvörðun um næsta skref.
„Ég er að fara finna mér eitthvað nýtt að gera í sumar. Ég mun æfa á fullu fyrir næsta glugga,“ sagði Hildur við Fótbolti.net eftir leik.
Ísland getur tryggt sér sæti á EM í Sviss þann 16. júlí þegar liðið mætir Póllandi ytra. Fjórum dögum áður, þann 12. júlí, mætir liðið Þýskalandi á Laugardalsvelli.