Erlent

Á­tján látnir eftir mikið ó­veður í miðríkjum Banda­ríkjanna

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Óveðrið skildi eftir sig slóð eyðileggingar.
Óveðrið skildi eftir sig slóð eyðileggingar. AP Photo/Julio Cortez

Að minnsta kosti átján létust og hundruð eru slösuð eftir að hvirfilbyljir gengu yfir miðríki Bandaríkjanna í gær.

Mikið tjón varð af völdum þeirra og rafmagnið fór af hjá fimm hundruð þúsund manns. Sjö létu lífið í norðurhluta Texas, fimm í Arkansas, tveir í Oklahoma og einn í Kentucky.

Ríkisstjóri Texas segir að neyðarástandi hafi nú verið lýst yfir í þriðjungi allra sýslna í ríkinu en í Cook sýslu í Texas létust þrír úr sömu fjölskyldunni, þar á meðal tvö lítil börn. Óveðrið hafði einnig mikil áhrif á samgöngur á svæðinu, hvirfilbyljir þeyttu stærstu flutningabílum á hvolf þannig að ein stærsta hraðbrautin í nágrenni Dallas lokaðist um tíma.

Eldingaveður fylgdi skýstrokkunum og meðal annars þurftu 125 þúsund gestir á Indianapolis 500 kappakstrinum að koma sér á brott þannig að keppnin frestaðist um fjóra tíma.

Veðrinu slotaði svo síðdegis en veðurfræðingar óttast að í ár verði óvenju mikið um slíka hvirfilbylji í miðríkjunum. Aðeins eru nokkrir dagar liðnir síðan svipað veður gekk yfir í Iowa þar sem fjórir létu lífið, en fellibyljatímabilið byrjar ekki formlega fyrr en í næsta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×