Innlent

Fundu loks heitt vatn í Tungu­dal

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Fundurinn gefur vísbendingu um að meira heitt vatn sé á svæðinu.
Fundurinn gefur vísbendingu um að meira heitt vatn sé á svæðinu. hörður christian sigurðsson

Rannsóknarboranir í Tungudal í Ísafirði báru loks árangur í dag. Fimmtíu og fimm gráðu heitt vatn fannst í holu sem verkkaupi hefur ákveðið að fóðra og rýma, merki þess að holuna skuli nýta. Það eru ánægjuleg tíðindi fyrir Ísfirðinga sem geta mögulega látið af olíubrennslu til húshitunar í framtíðinni. 

Þetta staðfestir Guðmundur Ármann Böðvarsson framkvæmdastjóri Ræktunarsambands Flóa og Skeiða, verktaki í boruninni. 

„Þetta eru rannsóknarboranir sem hafa verið í gangi síðasta sumar og aftur núna. Í dag á 480 metrum kom allt í einu eitthvert magn af vatni sem mældist 55 gráðu heitt,“ segir Sigurður sem er þó ekki viss um að vatnið sé nægilega heitt. 

Orkubúið, verkkaupi, og Ísor, ráðgjafi í boruninni, hafi samt sem áður ákveðið í dag að nýta holuna. Um er að ræða langþráð tíðindi enda borun ekki skilað tilætluðum árangri hinað til. 

„Þetta hefur ekki gengið frábærlega hingað til en þetta eru klárlega tíðindi. Það verður væntanlega borað áfram og dýpra. Planið var að fara í 700 metra. Það að minnsta kosti lyftist á þeim brúnin, Orkubúsmönnum, myndi ég halda.“

Holan gefi auk þess vísbendingu að meira heitt vatn sé á svæðinu, sem geti tekið við af olíubrennslu til húshitunar á svæðinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×