Fótbolti

Sverrir Ingi og fé­lagar meistarar eftir ó­trú­lega loka­um­ferð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sverirr Ingi er Danmerkurmeistari 2024.
Sverirr Ingi er Danmerkurmeistari 2024. @fcmidtjylland

Lokaumferð umspilsins um Danska meistaratitilinn í fótbolta fór fram í dag. Midtjylland stendur uppi sem Danmerkurmeistari eftir hreint út sagt ruglaða lokaumferð þar sem liðið lenti 2-0 undir og allt stefndi í að Bröndby yrði danskur meistari.

Sverrir Ingi og félagar gerðu hvað þeir gátu til að kasta titlinum frá sér. Liðið kom hins vegar til baka í síðustu tveimur leikjum sínum – sem báðir enduðu 3-3 – og náði þar með að tryggja sér danska meistaratitilinn í fyrsta sinn síðan 2020.

Sverrir Ingi og félagar byrjuðu leik dagsins gegn Stefáni Teiti Þórðarsyni og bikarmeisturum Silkeborgar hins vegar skelfilega. Um miðbik fyrri hálfleiks var staðan 0-2 og Silkeborg með öll völd á vellinum.

Á sex mínútna kafla í síðari hálfleik skoruðu heimamenn þrjú mörk og á sama tíma var Bröndby óvænt að tapa gegn AGF. Silkeborg tókst að jafna metin í 3-3 og reyndust það lokatölur í Herning. Þar sem Bröndby tókst ekki að sigra AGF þá stendur Midtjylland uppi sem meistari en liðin voru jöfn að stigum fyrir lokaumferðina.

Sverrir Ingi spilaði allan leikinn í hjarta varnar Midtjylland á meðan Stefán Teitur lék allan leikinn í liði Silkeborgar. Þá lék Mikael Neville Anderson 85 mínútur í liði AGF.

FC Kaupmannahöfn endar í 3. sæti eftir 1-1 jafntefli við Nordsjælland á heimavelli í dag. Með sigri hefðu gestirnir getað stolið 3. sætinu en það veitir þátttökurétt í Sambandsdeild Evrópu á komandi leiktíð.

Orri Steinn Óskarsson lék allan leikinn sem fremsti maður hjá FCK á meðan Rúnar Alex Rúnarsson sat sem fastast á bekknum.

Midtjylland vinnur mótið með 63 stig, Bröndby kemur þar á eftir með 62 stig, FCK með 59 og Nordsjælland með 58 stig. AGF er svo með 44 stig og Silkeborg aðeins 36 í 6. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×