Fótbolti

De Bru­yne orðaður við nýtt fé­lag í MLS

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
De Bruyne hefur sýnt og sannað að hann er einn af bestu leikmönnum heims undanfarinn áratug eða svo.
De Bruyne hefur sýnt og sannað að hann er einn af bestu leikmönnum heims undanfarinn áratug eða svo. Mike Hewitt/Getty Images

Belgíski landsliðsmaðurinn og leikmaður Englandsmeistara Manchester City, Kevin De Bruyne, er orðaður við lið San Diego FC sem leikur í MLS-deildinni í Bandaríkjunum. Hann ku vera áhugasamur að færa sig um set en það er þó ekkert fast í hendi að svo stöddu.

The Athletic greinir frá því að teymi De Bruyne hafi þegar rætt við San Diego en um er að ræða nýtt lið í MLS-deildinni. Ekki er talið að hann sé að stökkva frá Man City nú í sumar en leikmaðurinn virðist þó hafa alvöru áhuga á að spila í MLS-deildinni þegar fram líða stundir.

Samningur De Bruyne í Manchester rennur út sumarið 2025 og myndi marka áratugs afmæli De Bruyne hjá félaginu. Sam Lee, sérstakur Man City blaðamaður The Athletic, skrifaði fyrr á árinu að Belginn íhugaði að skrifa undir nýjan samning og leggja svo skóna á hilluna þegar hann væri 35 ára gamall.

Nú virðist De Bruyne á öðru máli en vitað er að Sádi-Arabía hefur áhuga á honum og þá ætti að vera auðvelt fyrir hann að færa sig til New York Football Club ef hann vill spila í MLS-deildinni þar sem NYFC er undir sama eignarhaldi og Man City.

De Bruyne verður 33 ára gamall í sumar og er enn með betri miðjumönnum Englands sem og Evrópu. Hann glímdi talsvert við meiðsli í vetur en tókst þó að skora sex mörk og gefa átján stoðsendingar

Hann getur enn bætt við þann fjölda þar sem Man City mætir Man United í úrslitum ensku bikarkeppninnar á laugardag. Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×