Fótbolti

„Reglurnar hjá KSÍ eru skýrar“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Åge Hareide sat fyrir svörum á blaðamannafundi í morgun.
Åge Hareide sat fyrir svörum á blaðamannafundi í morgun. Getty/Will Palmer

Åge Hareide kynnti í morgun landsliðshóp Íslands sem mætir Englandi föstudaginn 7. júní á Wembley og Hollandi mánudaginn 10. júní á De Kuip. Albert Guðmundsson er ekki í hópnum og Hareide staðfestir að hann hafi ekki haft heimild til að velja Albert.

Albert má ekki vera í hópi Íslands þar sem ekki hefur enn verið unnið úr kæru á niðurfellingu á meintu kynferðisbrotamáli. Alberti var heimilt að leika í síðasta landsliðsglugga í mars vegna undanþágu.

Albert var þá valinn í hópinn eftir niðurfellingu málsins en sú niðurfelling var kærð eftir að hópurinn hafði verið valinn og verkefnið hafið. Stjórn KSÍ hafði þá samþykkt að leikmaður mætti klára verkefni sem stæði yfir þrátt fyrir að mál yrði kært.

Nú er hins vegar nýtt verkefni, málið enn á borði ákæruvalds og Albert því ekki gjaldgengur.

Åge Hareide, landsliðsþjálfari Íslands, staðfesti það á fréttamannafundi nú rétt fyrir hádegið að hann hafi ekki mátt velja Albert í hópinn

„Það voru leikmenn sem ég vildi velja en vegna meiðsla þurfti ég að skilja menn eftir og líka út af reglum KSÍ,“ sagði Hareide á fundinum.

Hann var þá spurður hvort Albert hafi verið maðurinn sem ekki mátt velja vegna reglna sambandsins.

„Sá sem ég gat ekki valið út af reglum KSÍ er Albert“ sagði Hareide. Albert hefur verið orðaður við félög víða um Evrópu eftir gott gengi með Genoa á Ítalíu í vetur og Hareide snerti aðeins á því í kjölfarið:

„Ég hef verið í þeirri stöðu áður að hafa leikmenn sem eru að líkindum á leið í nýtt félag. Það fer mikil athygli í það. Það getur verið vandræðasamt því hausinn getur þá verið annars staðar (en á landsliðsverkefninu). Stundum vilja félög að leikmennn séu á ferð og flugi til að fara í læknisskoðun á meðan þeir eru í landsliðsverkefni, og það getur haft truflandi áhrif.“

„En reglurnar hjá KSÍ eru skýrar og við getum ekkert gert í því,“ sagði Hareide á fundinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×