Fótbolti

Tvenna Orra Steins dugði ekki og titil­vonir FCK úr sögunni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Orri Steinn skilaði boltanum tvívegis í netið í dag en það dugði skammt.
Orri Steinn skilaði boltanum tvívegis í netið í dag en það dugði skammt. Ulrik Pedersen/Getty Images

Titilvonir FC Kaupmannahafnar eru úr sögunni eftir óvænt 3-2 tap gegn AGF á útivelli í næstsíðustu umferð dönsku úrvalsdeildarinnar. Orri Steinn Óskarsson skoraði bæði mörk FCK í kvöld en liðið er fjórum stigum á eftir Bröndby og Midtjylland þegar ein umferð er til loka tímabilsins.

Fyrir leik var ljóst að FCK þurfti að vinna til að eiga enn möguleika á að verja titilinn. Gestirnir fögnuðu því vel og innilega þegar Orri Steinn kom FCK yfir í Árósum í kvöld. Það entist þó ekki lengi þar sem Mikael Neville Anderson lagði boltann á Mads Madsen aðeins tveimur mínútum síðar og staðan orðin 1-1.

Madsen bætti svo við öðru marki sínu eftir tæpan hálftíma og fullkomnaði þrennu sína í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Staðan 3-1 í hálfleik og titilvonir FCK svo gott sem úr sögunni.

Orri Steinn minnkaði muninn þegar tíu mínútur lifðu leiks, hans 14. mark í öllum keppnum á leiktíðinni. Nær komust gestirnir hins vegar ekki og lokatölur 3-2 AGF í vil. Bæði Mikael og Orri Steinn spiluðu allan leikinn og Rúnar Alex Rúnarsson sat á varamannabekk FCK.

Fyrir lokaumferð deildarinnar eru Bröndby og Midtjylland jöfn á toppnum með 62 stig. FCK er með 58 stig og Nordsjælland er sæti neðar með 57 stig. Þriðja sætið veitir þátttöku í Sambandsdeild Evrópu á næstu leiktíð en FCK og Nordsjælland mætast í lokaumferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×