Enski boltinn

Klopp enn fúll út í Maddison eftir að Liverpool missti af titlinum 2019

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jürgen Klopp og strákarnir hans í Liverpool eru í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og enda þar.
Jürgen Klopp og strákarnir hans í Liverpool eru í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og enda þar. getty/James Baylis

James Maddison er ekki á jólakortalista Jürgens Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool. Þjóðverjinn hefur ekki enn fyrirgefið honum atvik fyrir fimm árum.

Liverpool barðist við Manchester City um Englandsmeistaratitilinn tímabilið 2018-19. City komst í bílstjórasætið í toppbaráttunni með sigri á Leicester City í næstsíðustu umferðinni. Vincent Kompany tryggði City-mönnum sigurinn með eftirminnilegu marki.

Klopp stýrir liðinu í síðasta sinn gegn Wolves á sunnudaginn. Í viðtali við Redmen TV fór hann yfir árin sín níu hjá Rauða hernum og það er greinilegt að mark Kompanys situr enn í honum.

„Augnablikið þegar Kompany snerti boltann þarna, ég er mjög ánægður að hafa ekki fengið slag þá því þannig leið mér,“ sagði Klopp.

„Ég man nákvæmlega hvernig ég lá á sófanum og hugsaði að Maddison ætti að verjast honum. Síðan þá hefur mér ekki líkað við Maddison. Ég var reiður út í Brendan [Rodgers, þáverandi stjóra Leicester] þann dag því hann hefði átt að taka Maddison út af. Hann var þreyttur. Leicester voru mjög góðir í fyrri hálfleik og eftir það hefðu þeir átt að skora. Þetta er bara persónulegt mál. Það eru engin vandamál en þegar ég sé hann ... og ég gerði það á dögunum.“

Klopp vísaði þar í leik Liverpool og Tottenham sem Rauði herinn vann, 4-2. Maddison kom inn á sem varamaður í leiknum.

Liverpool er í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og endar þar sama hvernig úrslitin í lokaumferðinni verða.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×