Innlent

Skip­stjórinn og tveir stýri­menn hand­teknir vegna sjó­slyssins

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Hadda HF er báturinn sem grunur leikur á að fraktskipið hafi rekist á í nótt með þeim afleiðingum að honum hvolfdi. Eins og sjá má er báturinn talsvert skemmdur.
Hadda HF er báturinn sem grunur leikur á að fraktskipið hafi rekist á í nótt með þeim afleiðingum að honum hvolfdi. Eins og sjá má er báturinn talsvert skemmdur. Vísir/Sigurjón

Skipstjóri skipsins Longdawn hefur verið handtekinn, grunaður um að hafa yfirgefið mann í sjávarháska við Garðskagavita í nótt. Allt bendir til þess að fraktskipið hafi rekist í strandveiðibát manns sem lenti í sjónum en var naumlega bjargað. Auk skipstjórans eru tveir stýrimenn í haldi lögreglunnar í Vestmannaeyjum. 

Slysið átti sér stað um þrjúleytið í nótt. Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, greindi frá því í morgun að þegar ferill strandveiðibátsins hafi verið skoðaður og borinn saman við ferðir annarra skipa á svæðinu, hafi komið í ljós að flutningaskipið Langdawn, var á siglingu á sama stað á sama tíma.

„Við tókum þá ákvörðun að beina flutningaskipinu til hafnar í Vestmannaeyjum þar sem að skýrsla verður tekin af skipstjóranum. Það er að segja við erum að skoða það hvort að flutningaskipið tengist því á einhvern hátt að bátnum hvolfdi.“ 

Þrír handteknir vegna málsins

Karl Gauti Hjaltason, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, greinir frá því samtali við fréttastofu að skipstjórinn, sem er rússneskur, hafi nú verið handtekinn. Grunur leiki á um að hann hafi hugsanlega yfirgefið mann í sjávarháska. Auk skipstjórans eru fyrsti og annar stýrimaður skipsins einnig í haldi lögreglunnar. Aðspurður segir Karl Gauti að yfirheyslur fari nú fram en óvíst sé hvort farið verði fram á gæsluvarðhald. 

72 ára manni var bjargað af vini sínum úr sjónum í nótt. Félaginn sagði engan vafa leika á að fraktskipið hefði rekist á bátinn. Viðtal við bjargvættinn, Arnar Magnússon, má sjá hér að neðan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×