Enski boltinn

Stjóri Spurs ó­sáttur við viðhorfið: „Þetta er utan fé­lagsins, innan þess, alls staðar“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ange Postecoglou fórnar höndum á hliðarlínunni í leik Tottenham og Manchester City í gær.
Ange Postecoglou fórnar höndum á hliðarlínunni í leik Tottenham og Manchester City í gær. getty/Justin Setterfield

Ange Postecoglou, knattspyrnustjóri Tottenham, var ekki sáttur með hvernig leikmenn liðsins og stuðningsmenn þess nálguðust leikinn gegn Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Spurs tapaði leiknum, 0-2, og á því ekki lengur möguleika á að komast í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili. 

Tapið þýðir líka að möguleikar erkifjendanna í Arsenal á að verða Englandsmeistarar minnkuðu til muna, eitthvað sem virtist vera einhverjum Tottenham-mönnum ofarlega í huga.

Postecoglou segir nauðsynlegt að breyta hugarfarinu hjá Tottenham, ef liðið ætlar að nálgast þau bestu á Englandi.

„Síðustu tveir sólarhringar hafa sýnt hversu óstyrkar stoðirnar eru,“ sagði Ástralinn eftir leikinn gegn City í gær.

„Það þýðir bara að ég þarf að setjast aftur að teikniborðinu með nokkra hluti. Þetta er utan félagsins, innan þess, alls staðar. Þetta er áhugavert verkefni.“

Postecoglou vildi lítið tjá sig um fögnuð sumra stuðningsmanna Tottenham þegar Erling Haaland kom City yfir í leiknum í gær. Samt var ljóst að hann var ekki sáttur með viðhorf þeirra.

„Ég hef ekki áhuga, félagi. Mér er alveg sama. Þetta er bara mín skoðun. Ég segi þér hana ekki. Þetta er bara fyrir mig. Ég er sá sem þarf að gera þetta. Þú getur myndað þér skoðun á þessu,“ sagði Postecouglou.

„Ég las líklega rangt í stöðuna varðandi hvað er mikilvægt í viðleitni þinni til að verða sigurlið en það er allt í lagi. Þess vegna er ég hérna.“

Tottenham er í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Liðið mætir botnliði Sheffield United í lokaumferðinni á sunnudaginn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×